Myndasíða Gylfa

Blogg, Photos, Travelstories, videos

07.04.2009 13:53

Skessuhorn 28. mars 2009

Jæja, vildi nú segja nokkur orð um ferð okkar Toppfara á Skessuhorn síðasta laugardag marsmánaðar.  Örlagarík var ferðin en komum að því síðar.  Búið var að fresta ferðinni einu sinni vegna veðurs og gat nú brugðið til beggja vona eins og gengur með þessa ferðir.  Enda þegar keyrt var í átt að Skarðsheiðinni var frekar dimmt yfir og hvasst á láglendi.

Við vorum komin af stað um klukkan 8:30 frá Skarðheiðarvegi en vegna lítils snjós niðri þá keyrðum við 1km inn eftir honum.  Auðvitað byrjuðum við á því lækka okkur og töpuðum þessari litlu hækkun sem bílarnir fóru.  Skemmtilegt gil milli Sauðahryggs og Sauðadals varð á vegi okkar og tók smá tíma að finna steina til að tipla á yfir.
Veðrið var yndislegt og ætlaður vindur lét ekki á sér kræla og við fækkuðum fötum.  Sáum vel yfir Skessuhorn sem er sannarlega einn flottasti tindur landsins ásýndar.
Þegar ofar dró jókst snjómagnið og förin urðu dýpri en samt ósköp þægileg göngu.  Þegar við vorum gott sem undir Skessuhorni byrjaði að hvessa og voru ágætis strengir á köflum.  Þegar við bættist snjófjúk síðar voru snjógleraugun tekin upp.  Væsti nú ekki um mann þrátt fyrir mikin vind þ.e. þangað til móða byrjaði að herja á mig.  Rándýr snjógleraugu fyrir hjálma, en stóðu sig ekki sem best þar og fengu að fjúka ofan í poka aðeins ofar.
Þegar hér var komið og við vorum komin í 600m hæð og sunnan megin samsíða Kötlum var snjórinn orðin verulegur á köflum. Tók fararstjórinn okkar þá fyrsta snjóflóðaprófílinn til að tryggja að leiðin væri örugg.  Það var í lagi og við þrömmuðum áfram rúman kílómetra undir Skessuhorninu án þess að hækka okkur enda vorum við á leið að uppgönguleiðinni.
Vindin lægði þar verulega og varð mun hægara um vik enda án gleraugna.  Einhvers staðar þar var annar snjóflóðaprófíll tekinn og benti hann til þess að gæta yrði varúðar og var það gert.  Einnig var farið í mannbrodda og ísexin tekin til brúks.  Fararstjórinn rifjaði upp viðbrögð við falli og héldum við áfram.
Svo var byrjað að hækka sig og var skyggnið upp frekar lítið þó sæist í klettanippur efst undir hryggnum.  Við gengum ansi bratt hér og fórum beint upp í fínni halarófu.
Í rúmlega 800 metra hæð fórum við upp smá klettahrygg.  Þar bætti verulega í vindinn og fórum við þar aðeins varlegar en áður enda klaki undir fót þó broddanir virkuðu traustir.  Í tæpum 900m hinkruðum við aðeins á meðan fararstjórinn fór á undan og skoðaði möguleika um uppgöngu.  Var tekin ákvörðun um að fara uppá hrygginn sem liggur á Skessuhorn en ekki alla leið á hornið enda mjög hvasst á leiðinni eftir hryggnum.

Það var stutt leið og við héldum hópinn þétt uppá hrygginn þar sem hinum megin var þverhnípt og mátti sjá nokkur hundruð metra þar niður í næstum lóðréttu falli.  Einnig sáum við Skessuhornið er við horfðum eftir hryggnum í rúmlega 500m fjarlægð en það varð að bíða betri tíma.  Eftir örstutt stopp og myndatökur héldum við niður og var reynt að halda hópinn eins og hægt var.
Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum varð óhapp á leiðinni niður og vorum við rétt búin að lækka okkur um 40-60 metra þegar vinkona okkar missir fótana og rennur fram fyrir sig á klettaskör nokkrum metrum neðar.  Þar sem við vorum í næstum 45°halla var hraðinn mikill og hafði hún engin tök að setja öxina fyrir sig og rak höfuð í klettana og rúllaði svo niður brekkuna fyrir neðan.  Ekki fá nokkur orð því lýst hvað fór fram í huga mínum á meðan þessu stóð og næstu mínútur á eftir en ljóst er að tímin stóð kyrr og svo leið hann afskaplega hægt.......
Held að ég sjálfur þrátt fyrir töluverða reynslu af notkun ísaxar og brodda í fjölda ferða hefði ekki náð að stoppa mig áður en að klettunum kom.  Það varð því mikið slys að höfuðið skyldi fara þar á undan því ég er nokkuð viss um að hefði hún skoppað yfir og niður þessa 2 metra sem voru þar fyrir neðan í mjúkan snjó hefði hún náð að stöðva sig.  En þarna rúllaði hún niður án þess að geta nokkuð að gert enda í roti um 150 metra áfram í miklum bratta eða rúmlega 80 metra lækkun.
Það var mikið lán að við höfum frábæran og reyndan fararstjóra sem tók fór í loftköstum á eftir henni niður og náði fram fyrir hana og stöðvaði.  Lán var líka að fyrir neðan klettana var snjóbrekka en ekki ís eða harðfenni og hægði það á henni því annars hefði getað farið ver en ekki var langt í mun hærri kletta fyrir neðan.
Það sem á eftir kom endaði í 8 tíma björgunaraðgerð þar sem að komu fjöldi björgunarsveita með allan tiltækan útbúnað og mannskap.  Við lítill gönguhópur 800 metra hæð gátum lítið annað gert en að halda hita á vinkonu okkar og tryggja skjól fyrir hana.  Ekki var hægt að færa hana niður því við vissum ekki um hvaða áverka hún hafði og var því allt kapp lagt á að byggja skjól fyrir hana og klæða hana í öll þau aukaföt sem við höfðum og meira að segja bakpoka o.fl.   Mikil lukka var að 4 snjóskóflur voru með í ferðinni.
Fararstjórinn okkar stjórnaði sem herforingi og hélt okkur öllum að verki en við skiptumst á að moka snjó, halda hita á henni með líkömum okkar og svo sinna öðru eins og að næra okkur. 
Það var ekkert fát á fólki og var unnið skipulega og lítill skjólveggur varð á nokkrum tímum að ágætis snjóskýli en þess var þörf enda byrjað að hvessa og snjókoma jókst þegar leið á daginn.  Til merkis um það þá fennti bakpoka, stafi og annað fljótt í kaf og ljóst að aðstæður breyttust fljótt í brekkunum og juku á ýmsa hættu s.s. snjóflóð.  Það var mikið lán að allir voru mjög vel búnir og gátu því haldið út þann tíma sem við biðum eftir hjálp í 800metra hæð og vorum við öll með hitabrúsa og næringu.  Auðvitað skalf maður aðeins eftir að liggja í snjónum að hita vinkonu okkar en því var kippt í liðin með smá mokstri eða flutningi snjóköggla.  Það hjálpaði líka að með tímanum þá virtist hún koma betur til rænu þó hún væri í "móki" á köflum.
Það leið langur tími þar til fyrstu björgunarmenn komu að eða 5 klukkustundir og þó að í upphafi hafi tíminn liðið hægt þá var það allt í einu staðreynd að klukkan var orðið sjö þegar björgunarmenn með börur komu á staðinn.  Við vorum auðvitað hæstánægð að nokkra "T"rausta kappa úr HSSR fyrsta á staðinn enda þekkti ég til þeirra og svo komu þeir hverjir á fætum öðrum og beittu ýmsum brögðum til að koma útbúnaði upp.


Þrusuðu vélsleðum hátt upp eftir hlíðunum og þegar þeir stoppuðu á hvolfi eða ekki var haldið áfram með sjúkrabúnað til okkar, m.a. félagi minn úr HSG.  Þökk sé þeim öllum og öllum sem að björguninni komu sem og starfsfólki Landspítalans Fossvogi.
Þegar við vorum búin að flækjast fyrir björgunarmönnum í um klukkustund héldum við niður en aðra leið heldur en við komum upp.  Haldið var beint niður hlíðina í átt að vélseðamönnum björgunarsveitanna sem fluttu okkur að snjóbíl Björgunarsveitinnar Ok.  Þar biðum við í rúman hálftíma, fengum samlokur, gúmmísnuð, sviðasultu og fleiru frá rausnarlegu björgunarfólki.  Síðan flutti snjóbíllinn okkur inná Skarðsheiðarveg þar sem björgunarsveitarbílar fluttu okkur að okkar bílum.

Þar mættu okkur fulltrúar Íslenskra fjallaleiðsögumanna sem færðu okkur kakó og með því, meira að segja smá koníaki út í fyrir þá sem ekki keyrðu.  Kakóið kom frá sveitabæ í nágrenninu og þökkum við það enda um ekta súkkulaði að ræða.  Það var mikill léttir að sjá stuttu síðar þyrlu Landhelgisgæslunar fljúga yfir en þá vissum við að vinkona okkar fengi flugferð í bæinn en þyrfti ekki að skrölta með öðrum farartækjum niður ójöfnur og hóla Skarðsheiðarinnar.
Auðvitað gæti ég farið mun nánar ofan í öll mál hérna en læt þessa stuttu frásögn duga sem mína upplifuna af ferðinni sem getur nú farið í reynslubanka okkar og farsæl á þann veg að vinkona okkar er á góðum batavegi og mun fyrr en síðar snúa til fjalla á ný.

Bæði eru síðunni minni myndir hér af ferðinni og 10 mínútna langt video en þar sjást að vísu ekki myndir af slysstað en það bíður betri tíma.


Flettingar í dag: 72
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 69
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 198859
Samtals gestir: 26725
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 12:29:00

Eldra efni

Tenglar

Um mig

Nafn:

Gylfi

Heimilisfang:

Grafarvogurinn

Staðsetning:

Reykjavik

Um:

Uppalin í Mosó og Grafarvogi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Dances with wolfes

Uppáhalds tónlist:

Queen

Uppáhalds manneskjur:

Strákarnir mínir

Uppáhalds matur:

Samloka með skinku osti og tómatssósu