Myndasíða Gylfa

Blogg, Photos, Travelstories, videos

04.04.2011 19:49

emailVorum að ljúka lokagöngu. Komin í rútuna með kaldan öl og Lilja tært vatn. 3 sólahringa ferð

email

Vorum að ljúka lokagöngu. Komin í rútuna með kaldan öl og Lilja tært vatn. 3 sólahringa ferð til íslands hafin. Sofum í næturrútu í nótt til Lima, næturflug til new york á eftir og eftir dag á Manhattan er að lokum næturflug til frábæra Íslands og lending 6:30 á fimmtudag.
Bestu kveðjur úr
Andersfjöllum
LILJA OG GYLFI


04.04.2011 19:36

emailVorum að ljúka lokagöngu. Komin í rútuna með kaldan öl og Lilja tært vatn. 3 sólahringa ferð

email

Vorum að ljúka lokagöngu. Komin í rútuna með kaldan öl og Lilja tært vatn. 3 sólahringa ferð til íslands hafin. Sofum í næturrútu í nótt til Lima, næturflug til new york á eftir og eftir dag á Manhattan er að lokum næturflug til frábæra Íslands og lending 6:30 á fimmtudag.
Bestu kveðjur úr
Andersfjöllum
LILJA OG GYLFI


04.04.2011 18:03

emailEigum 10mín e. á síðustu gönguleíðinni. Fengið fullt af rigningu síð. daga en nú er glaðasól þ

email

Eigum 10mín e. á síðustu gönguleíðinni. Fengið fullt af rigningu síð. daga en nú er glaðasól þegar 2sólahringa heimferð hefst.
Kv.gylfi


28.03.2011 15:37

emailÁ toppnum e. 9klst engin hæðarveiki hjá mér.Steik og flott i kvöld.

email

Á toppnum e. 9klst engin hæðarveiki hjá mér.
Steik og flott i kvöld.


27.03.2011 21:50

emailHálfnaður á Misti 5.840m. komin í efstu tjaldbúðir. Gengur súper. Leggjum af stað kl.01 perútí

email

Hálfnaður á Misti 5.840m. komin í efstu tjaldbúðir. Gengur súper. Leggjum af stað kl.01 perútíma 06 ísl í 6-7 tíma göngu.
Á leið í háttin kl.17 perútíma svo ég hvílist smá. B-)


18.03.2011 03:57

3 dagur Perú 2011

Sæl verið þig gott fólk, er staddur í Inkaborginni Cusco í 3200 metra hæð og 2 degi er að ljúka.  Æðislegt veður en gæti ringt vel næstu daga.  Dásemdarborg og höfum skoðað Inkarústir og tekið það rólega hér enda tekur smá tíma að venjast því að anda og hreyfa sig eitthvað um leið.  Á morgun verðum við 10 tíma göngu/skoðunartúr í Sacred Valley og er það síðasti aðlögunardagurinn áður en alvaran byrjar.  Á laugardag hefjum við 4 daga göngu um 45 km svokallaðan Inkaveg og fáum þá að reyna verulega á okkur í þunnu loftinu. Höfum samt burðarmenn sem bera tjöld og mat o.fl., en tökum samt amk 10-12 kg bakpoka með okkur og ætti það að verða smá átök, en erfitt að bera lítinn innkaupapoka hér í borginni upp smá tröppur í dag.
Annars gekk ferðalagið sem tók um 26 tíma ágætlega þrátt fyrir að tveir Toppfarar hafi týnt töskunum sýnum.  Gurra týndi sinni í um 40 mín í New York og Roar þurfti að bíða í rúman sólarhring og fékk sína tösku seinniparrtinn í dag 16. mars.  Tímamunur er 5klst. og eruð þið heima á íslandi 5 tímum á undan.

Það er alltaf gott aðkomast aðeins frá landinu kalda en maður sér það hér í Perú að við höfum það MEGA gott.  Hér er fólk að betla og selja húfur með smábörn á bakinu fram eftir nóttu og þarf virkilega að hafa fyrir lífinu. 

10.03.2011 16:51

Perú mars 2011

Nú styttist í ævintýraför nokkurra Toppfara á slóðir Inka í Andesfjöllunum í Perú.  Þetta er annar stærsti fjallgarður í heimi og ætlum við að taka 4 mismunandi reisur þar í fjöllunum.  Við göngum meðal annars hið fræga "Inca Trail" að Machu Picchu Inkaborginni sem reist er uppá fjallstindi.  Þá tökum förum við á eldfjallið El Misti sem er 5.825 metra hátt sem verður auðvitað hátindurinn.


Næstu vikur mun ég setja inn smá blogg hér og nokkrar myndir á myndasíðuna ef þið viljið fylgjast með ævintýrinu.
Gylfi Þór

16.09.2009 02:58

Blogga lítið þessa dagana

Nýjasta bloggið mitt er síðan í vor af Hvannadalshnúk.  Kemst vonandi í það áður en líður að jólum að bæta við ævintýrum sumarsins hér inn, þannig að réttnefni á blogginu mínu er frekar, ferðasögur en blogg.

18.05.2009 11:01

Hvannadalshnúkur

Síðasti mánuður á ferðalagi um landið 14. apríl - 17. maí + HNÚKAFERÐIN SVAKALEGA
Búin að stefna að stóru markmiði í allan vetur,  Nefnilega göngu á Hvannadalshnúk 2.109,6 metra háan tind og þann hæsta á Íslandi eins og hver Íslendingur veit. 
Eins og fram kemur í fyrra bloggi þá var ég búin að sanka að mér nokkrum ferðum og var duglegur um páskana og hélt auðvitað uppteknum hætti áfram.  Fer hér aðeins yfir lokaaðdraganda að Hvannadalshnúk en enda auðvitað áhonum.


14. apríl Vífilfell 655m
Jæja reynt að komast á Vífifell í smá skyggni.  Tóks næstum því núna, en við fórum upp norðvestan megin í gilið þar.  Ellen vinkona mín mætti með í sínu fyrstu ferð með Toppförum og stóð sig með prýði.

Ekkert súperveður en það skipti ekki máli.  Stemmingin var fín og vor í lofti þrátt fyrir smá bleytu.  Sjá ferðasöguna í máli og myndumhér.  Einnig er hér 25mb myndband af göngunni



18. apríl Tindfjallajökull
Snilldarferð með 15 Toppförum og Róberti fjallaleiðsögumanni uppá Ýmir 1475m.  Gengum 22km á tæpum 9 klst.


Gekk mjög vel þrátt fyrir að skyggnið á sjálfan Ými hefði verið lítið.  Þurftu að nota brodda og axir undir lokin enda bratt og hált síðustu 100 metrana upp.  Nánar um ferðina í máli og myndum hér.

21. apríl Drottining og Stóra kóngsfell
Þriðjudagsgangan var þægileg eftir langa Tindfjallaferð og nutum við loksins ágætis veðurs með útsýni yfir höfuðborgina.  Uppgönguleið er rétt við þar sem Bláfjallaafleggjarninn beygir að Bláfjöllum til suðurs og Hafnarfjarðar til norðurs. 
Ekki stórafrek en mjög góð ganga fyrir sálina og umhverfið mjög skemmtilegt, eldborg, hraun og mosi.  Ágætis hópur mættur amk 20 manns.

Í Toppförum er eins og alkunna er föngulegur hópur fríðra kvenna.  Þótti sérstök ástæða til að mynda þær að þessu sinni með Stóra kóngsfell í baksýn. Takið eftir litadýrð gallanna hjá þeim.

Ekki voru komnar fleiri myndir af þessari ferð en þær koma kannski síðar.

25. apríl Blikdalshringur Esju
Aftur var gengin góður hringur uppá Esjunni í aukaferð með nokkrum Toppförum og góðum vinum.  Að þessu sinni var farin svokallaður Blikdalshringur.  Gengið var frá vigtarplani við Hvalfjarðargöngin austur fyrir Blikdalinn.  Þurftum að vaða skemmtilega á en við hefðu getað sleppt því ef við hefðum ratað rétta leið strax.  En auðvitað bara hressandi fyrir sál og líkama að taka smá fótabað í upphafi ferðar í fallegu gili.



Frá ánni var haldið upp og austur fyrir Tindstaðafjall en það er ægifagurt og kaman að ganga þröngar brúnir þess.

Fjallinu fylgt eftir inná meginhluta Esjunnar og uppá Hábungu 916m. en hluti hópsins sneyddi hjá henni enda vorum við þar líka fyrir 2 vikum.  (ofvirkt lið maður)


Þá var haldið niður í fínu færi framhjá Þverfellshorni, uppa á Kerhólakbam og niður Kambshorn, vesturhrygg Blikdals um Smáþúfur að vigtarplani. Urðu þetta samtals 24,2km á 8,5klst.  Fínn dagur það.

Með í för voru Íris, Kjartan, Roar, Gylfi, Rósa, Þorbjörg og Linda Rut
Meira af þessari göngu í máli og myndum
hér.  Myndband væntanlegt mjög bráðlega af þessari æðislegu göngu í súperfæri og veðri.

1. maí 2009 Kröfuganga....
Ganga með 7 toppförum á 944 m. tind Baulu í Borgarfirði. Fórum upp hrikalega grýttar hlíðar Baulu eftir þægilegum sköflum þar til við náðum í snjó og klaka.  Þar þurfti að setja broddana undir en sumir notuðu létta brodda sem var á mörkunum að duga eins og aðstæður voru.

 

Gengum á broddum og náðum á 3 tímum á toppinn í "brúnalogni".  Síðasti parturinn strembinn sökum snjóhengju og þurfti að gæta ýtrustu varúðar þar.  Á toppnum vorum við í hálftíma og nutum lífsins en sjaldan svona aðstæður á háum fjallatindum.  Horfuðm yfir sveitasetrið hennar Soffíu og athuguðum mögulega niðurgönguleið fyrir sumarferð.  Hópurinn þó sammála um að hentugra væri að ganga Bauluna í þessu færi frekar en auðu eins og á sumri.  Bara of stórgrýtt.


Mættir voru Bára,Helgi,Örn,Soffía,Ingi,Hildur,Gylfi

Tókum góða 2,5 tíma í stórgrýtta niðurleiðina en það var ekki mikið fljótara en uppgangan. Frábær ganga í fínasta veðri með toppfólki að vanda.  Nánar í máli og myndum 
hér  og ágætis video 92 mb hér.

Ferð Toppfara á Hvannadalshnúk 15-17. maí
Jæja loksins komið að stóru ferðinni og var hist kl.09 í Ártúnsbrekkunni þar sem hluti hópsins var mættur til að taka smá forskot á sæluna og ætlaði að ganga Fjaðrarárgljúfur á leið í Skaftafell.  Restin ætlaði að hitta okkur fyrir kvöldmat á Hótel Skaftafelli þar sem við gistum.

Fjaðraárgljúfur
Eftir ís á leiðinni var stoppað rétt áður en að Klaustri kom við gljúfur kallað Fjaðraárgljúfur en það er vinsælt að ganga eftir því ofan við og skoða.  Við ákváðum að ganga eftir því ofaní og fylgja að upptökum um það bil 2 kílómetra.



Klettarnir verða allt að 100 metra háir inn af gljúfrinu og blasa tignarlega yfir okkur.  Auðvitað þurfti að vaða ána í gljúfrinu margoft og þurfi að passa sig að renna ekki á hálum steininum enda straumurinn sums staðar nokkuð strerkur.


Ekki var þó um neina stórhættu að ræða og ættu þessi leið að vera við flestra færi sé ekki mjög mikið í ánni.  Við hjálpuðumst auðvitað að og héldumst oft hönd í hönd.



Frábær ganga og gott til að brjóta upp annars stíft gönguplan hópsins á fjöll og fjallatinda.  Fleiri myndir hér og 152 mb video hér.

Hnúkurinn
Vegna óhagstæðrar vindaspár var ákveðið að leggja af stað aðeins fyrr eða kl. 03 um nóttina í stað kl. 05.  Ljóst var strax við skoðun á spánni að það leit ekki vel út með vind uppi á jöklinum.  Það var þrátt fyrir afskaplega gott skyggni og heiðskýrt veður yfir öllu landinu. Það var því ákv. að strax eftir kvöldmat og stuttan fund að allir ættu að skutla sér í bólið um kl. 21.  Sjálfur ekki alveg á því svefnróli og því lítið um svefn hjá mér einnig sem spennan fyrir ferðinni hefur haft sitt að segja.  Eftir hafragraut, brauðmeti og drykk í morgunmat var ég eins tilbúin og ég gat fyrir ferðina, búin að ganga á fjölda fjalla síðustu vikur og mánuði.



Við lögðum af stað frá Virkisjökli um kl. 03:30 en þá var orðið nokkuð bjart enda nær íslenska sumarnóttin hámarki snemma.  Það sást vel til jökulsins þrátt fyrir smá skýjahulu öðru hvoru yfir hnúkinn sjálfann. 



Þegar að jöklinum var komið eftir smá sandbleytu og eyrar var farið í brodda en það var minniháttar brölt uppá hann. Þar var hægt að taka af sér broddana aftur og við tók ganga í ægifögum fjallasal upp Virkisjökul.



Á leiðinni mætti manni skemmtileg sýn því jöklamús er smásteinn með mosa allan hringin og mjög sjaldgæf var þar í smá magni.  Einnig drundi tvisvar í logni næturinnar þegar jökullinn hreyfði sig enda falljökull og mikið afl á ferð.  Var það mjög tilkomumikið.
Það tók síðan smátíma að finna rétta leið fram af skriðjöklinum efst því leiðii er að jafnaði ekki farinn lengur og er leið upp Sandsfellsleið farin í 95% tilvika í dag (algjörlega ágiskun útí loftið...).



Fyrir hop jökulsins var þessi leið sú algengasta og sparaði þá allt að tvo klukkutíma.  Sú var ekki raunin núna og heyrði ég að búið væri að tapa þeim sparnaði með breytingum sem orðið hafa á síðustu árum.



Við þokuðumst áfram upp með Rauðakamb á hægri hönd og all hrikalega flotta íshamra allt í kring.  Þegar í snjóinn var komið þyngdist færið mjög því brjóta þurfti harða skel í snjónum og svo var mjúkt undir.  Reyndi það mikið á fremstu menn og leiðsögumennina okkar.

Mjög brattar brekkur voru alla leið upp að svokölluðum Kaffikletti en þangað upp vorum við allan tíman í yndislegu veðri og sólin faldi sig á bakvið háa tindana og skýldi okkur fyrir hita og sólbráð.

Rétt fyrir kl. 08 eftir 4,5 klst. göngu komum við að Kaffikletti og tókum góða pásu og bættum á orkuforðann.  Ég var með 2 lítra vatnspoka með powerade og drakk af honum jafnóðum upp en bætti á mig Kakói á þarna og borðaði grófa samloku og smá kex.  Leið bara súper vel og ánægður með stöðuna hingað til



Skipt var í 3 línur en við vorum 20 Toppfarar og einn fjallaleiðsögumaður fyrir hverri línu.  Ég fór aftast í línu hjá Jóni Gauta með Guðbrand fyrir framan mig.  Þá var haldið á stað og var núna snjórinn skárri, þ.e. ekki þurfti að berjast í hverju skrefi en í staðinn varð hann harðari og því ofar sem við fórum því hálla var.  Sjá mynd hér að neðan. 



Einnig byrjaði núna að blása hressilega svo við áttum erfiðara með að fóta okkur og endaði með því að við fórum í brodda og settum upp skíðagleraugu og ég fór í skelina.  Kl. að verða 10 ákv. Siggi að snúa við enda með slæman krampa í fætinum og fylgdi Ingi bróður hans honum niður.  Til að tryggja öryggi þeirra fylgdu Brynjar fjallaleiðsögumaður og Guðjón þeim þó niður að Kaffikletti og náðu okkur svo við Dyrhamrar en þá vorum við búin að hamast í sömu brekkunni í stífum mótvindi í ca. 2klst.



Hann er æðislega flottur Dyrhamarinn með Hvannadalshrygginn til vinstri.  Eiginlega var ekki annað hægt en að vera dofallinn yfir útsýninu og hrikaleika náttúrunnar á þessum stað þrátt fyrir rokið.  Sjá má það aðeins betur á meðfylgjandi myndasyrpu og video.
Sjálfur byrjaði þó að örla hér á vandamáli sem átti eftir að verða mjög mikið fyrir sjálfan mig, nefnilega þróttleysi sem virtist koma alveg aftan að mér enda búin að vera mjög hress framan af.



Uppúr kl. 13 vorum við komin eins hátt og ég komst í þessari ferð sem er rétt um 2000 metra, þá var veðrið orðið mjög hvasst og fleiri á því einnig að hærra yrði ekki komist.  Auðvitað voru flestir Toppfara harðir í að reyna hvað sem væri óháð aðstæðum og þegar ljóst var að ekki færu allir upp færðum við okkur til í línum og ég hélt af stað niður á sléttuna undir Hvannadalshnúk ásamt Viðari fjallaleiðsögumanni, Helgu, Hildi, Guðbrandi og Halldóru.

Þrátt fyrir að þarna hafi blasað í hnúkinn gegnum skafrenninginn voru samt amk 1,5 klst.í toppinn miðað við veðrið þó einungis 100 metra hækkun væri þá eftir.  Eins illa og mér leið á þessu augnabliki laust þeirri hugmynd samt uppí huga mér að reyna við það.  Eins gott að það varð ekki úr og ca. 10-20 mínútum síðar þegar við höfðum lækkað okkur niður fyrir sprungusvæðið undir hnúknum og vorum að taka af okkur broddana sáum við restina af toppförum koma til baka en þau höfðu þá einnig fengið nóg og fararstjórinn ákveðið að lengra yrði ekki farið.  Við þessa smá hækkun hafði bæst meira í vindinn og þau fengu hreinlega klakaskothríð á móti sér.

Auðvitað gríðarleg vonbrigði fyrir þá sem voru hér annað árið í röð að reyna við tindinn en þau höfðu hækkað sig um 40 metrum hærra og áttu bara 60 metra hækkun á tindinn.  Í ljós kom eftirá að þarna undir hnúknum mældust um 35metrar á sekúndu stuttu áður þannig að segja má að þarna hafi ekki verið hundi út sigandi.

Jæja, niðurleiðin...hmmmmm...
Eins ofsalega ánægður ég var með þessa flottu leið upp Virkisjökulinn og að Dyrhamri þá var ég jafn skelfilega illa haldinn á leiðinni niður og var hún mér í alla staði fáranleg upplifun.  Hvort það var lélegt úthald, næringarleysi, þreyta eða skyndiveikindi eða ristillinn hjá mér þá missti ég gjörsamlega allan kraft.  Ég hékk aftan í Guðbrandi og Viðar sem fór fyrir línunni eftir sléttunni með vindinn sem betur fer á ská í bakið eða í bakið þegar á Sandfellið kom.  Þurfti ég mörgum sinnum að stoppa og leggjast niður og hvíla mig í 1-2  mínútur áður en ég gat haldið áfram.  Þar svimaði mig og átti erfitt með að einbeita mér og þurfti að berjast fyrir hverju skrefi.

Var þarna samt búin að drekka 2,7 lítra af vökva og var dælt í mig orkugeli og kók, sem ég veit ekki hvort höfðu önnur áhrif en þau að ég fékk líka svakalega í magann og langaði að æla að auki.  Svona var þetta meira og minna niður og þakka ég Viðari fjalalleiðsögumanni fyrir að hafa pínt mig niður þá leið sem við þurftum að vera í línu, þ.e. niður af jöklinum.  Margar hugsanir flugu í gegnum  hugann og ein var sú hversu lengi björgunarsveitirnar væru að komast frá Hnappavöllum að mér ef ég myndi bara líða útaf.  Ég sá að það væri ekki gott að þurfa að bíða eftir því og harkaði því af mér.  Þá var ég einnig búin að ákveða það að ég "hataði snjó" en það er kannski fullstert tekið til orða svona eftir á........

Það var hífandi rok alveg niður í 1000 metra og því hvergi skjól að fá.  Um síðir voru seinni línurnar búnar að ná mér og tók þá Jón Gauti pokann af mér og Simmi og Guðjón með honum héldu á honum niður og kannski fleiri til.

Ég hélt að kannski myndi orkan koma ný því við vorum bara að ganga aflíðandi niður en svo var ekki og leiddi Ingi mig síðustu metrana inná hótel herbergi að ganga sjö.  Hafði þá gengið 24 km á tæpum 15 og hálfum klukkutíma.

Niður Sandfellið fékk góða hjálp frá félögum og vinum í Toppförum sem studdu mig, reyndu að fá mig til að drekka og gáfu mér minn tíma til að komast niður og var ég um klukkustund síðar niður en fyrsti maður sem reyndar flýtti sér vegna mikils hausverks og vanlíðan.  Það voru m.a. Helga, Halldóra, Kristín og Hildur sem hjúkruðu mér, en einnig Roar og svo kom Björgvin fjallaleiðsögumaður síðastur.

Ekki vantaði tilgátur um hvað hefði ollið þessu veikindum hjá mér en ég lagði mig í 3 tíma niðri á hóteli og var svo orðin nokkuð góður en þá með um 38°hita sem var horfin morgunin eftir.  Náði að smakka afmælisköku Toppfara seint um kvöldið en fór samt fljótt í rúmið.

Svona var það þennan dag en á heildina lýt ég á ferðina sem einstaka upplifun og mjög sáttur við daginn þrátt fyrir sögulegar ófarir mínar.  Ég þakka auðvitað ferðafélögum mínum fyrir hugulsemina og þá aðstoð sem ég fékk frá þeim.  Sérstaklega Hjölla, Hildi og Guðbrandi sem ég "teikaði" í línunni uppá jöklinum.....

Annars er þá bara að skipuleggja næstu ferð á hnúkinn og vittu til ég verð með...
Hér eru 
myndir og svo 250 mb video

Einnig má sjá myndböndin á facebook en þá þarf ekki að downloda þeim fyrst.

17.04.2009 18:20

Páskarnir 2009 Mögnuð vika

Páskarnir 2009  7-12. apríl (mögnuð vika)
Páskavikan var með þeim minnisstæðustu hjá mér þó ég leitaði mörg ár aftur í tímann.  Það má segja að maður hafi verið að frá upphafi vikunnar og alla daga yfir páskana.

Förum aðeins yfir þetta en:
7. apríl fór ég í hefðbundna þriðjudagsgöngu með Toppförum.  Var haldið í Grindarskörð sem eru rétt sunnan skíðasvæðisins í Bláfjöllunum.  Gengið var frá skála SVFÍ sem er við vegin inní Hafnafjörð gengt Helgafelli.  Gengið var til suðurs að Grindarskörðum sem einnig hluti af gamalli gönguleið frá Selvogi og inní Hafnarfjörð.  Mjög skemmtilegar upplýsingar um leiðina má finna á síðunni Ferlir.is .
Gengið var eftir vel troðinni gönguslóð merktri af stikum og vörðum.  Leiðin er mjög greiðfær og á köflum eins og malbikuð.  Auðvitað er margt að skoða í hrauninu og fullt af skútum og hraunmyndunum og eflaust leynast þar hellar.

Eftir að haf klifrað upp Grindarskarðið sjálft í fínni snjóbrekku var klöngrast uppá næsta tind til vesturs.  Nokkuð bratt klifur og þegar ofar dró kom hvít slikja þoku yfir okkur sem maður furðaði sig á enda ekki nokkurt vindur í lofti.  Nokkrar mínútur í nesti og svo áfram niður sunnan megin á eftir Erni sem fann þar nýja leið, ekki greiðfæra en þó færa.

Þá mátti sjá glitta í Kóngsgil til suðurs er þokunni létti aðeins.Eftir þægilegt rölt til baka komu nokkrir dropar á bílastæðinu til að staðfesta að við hefðum komist í fyrstu sumarferðina án roks og rigningar.  Sjá myndir á myndasíðu oghér.

Miðvikudaginn 8. apríl
eða síðasta virka dag fyrir páska var sumar í lofti og Anna Rós hringdi og vildi fá mig á skíði.  Ég er í "JÁ" stuði þessa daga þannig að ég fór uppí Bláfjöll á ný nema á skíði í þetta skipti.  Fórum klukkan 17 og náðum hálfum degi í fínu færi en smá hríð svo við tókum upp snjógleraugun í smá stund.  Ég hæstánægður með að prófa nýju "gulu" tvöföldu gleraugun mín en lenti í smá ógöngum með gamla einfalda glerið á Skessuhorni.


Kom í ljós að það hentaði Önnu illa en henni varð hálfflökurt af því enda blönduðst himinn og jörð saman með skemmtilegum hætti og léku aðeins á taugakerfið og því auðvelt að missa áttir.
Sólin lét þó aðeins sjá sig áður en yfir lauk og varð þetta hin besta ferð enda engin röð í lyftur og ekki svo margir í brekkunum.


Skírdagur 9. apríl
var nú með flottustu dögum í mannaminnum hjá mér enda við ræsingu 7 um morgunin var glampandi blíða, sólin komin upp og nokkuð hlýtt í lofti miðað við aprílmánuð.  Haldið var inn að Meðalfellsvatni í Hvalfirði og inn Flekkudal þar sem 7 göngumenn að mértöldum héldu af stað upp Sandsfjall og hækkuðu sig til að byrja með úr 60m í um 400 m uppá fjallið.

Í brakandi blíðu og byrjað að afklæðast í brekkunum þar fyrir neðan.  Útsýnið af fjallinu fínt til allra átta.  Skarðsheiðardraumurinn allur til norðurs og til austurs kom Langjökull, Eiríksjökull, Botnsúlur og fleiri kennileiti komu þar upp.  Við horfðum á mávana ofan í Stekkjargil þar sem þeir flugu og sungu í klettunum, gengum svo áfram upp eftir aflíðandi hlíðum upp Esjuhlíðar.  Þorbjörg jarðfræðingurinn okkar fræddi okkur aðeins um tígulmyndanir í steinum sem við tipluðum yfir sem orsakst víst af frosti og þýðu og þeir fara í tígulaga form......,  Jæja upp á Esjuhorn í 740 metrum tipluðum við í þægilegri snjóbrekku og þá fór að sjást norðaustur yfir Esjuna en einnig lyfti Snæfellsjökull sér uppúr skýjunum yfir Akrafjalli og áttaði maður sig þar á að þar fór kóngurinn á svæðinu enda tignarlegur með eindæmum og að því er virtist mun nær heldur en þegar hann sést frá Reykjavík við sjávarmál.

Eftir gott matarhlé með útsýni yfir Skálafell, Móskarðahnúka og Laufskörð frá nýju sjónarhorni, var haldið áfram yfir Esjuna. Auðvitað birtist Hátindur Esjunnar okkur og svo horfðum við ofan í fyrri ferðir Hjölla "fararstjóra" uppúr Elífsdal sem við gengum framhjá.  Færið þyngdist aðeins og næstu 10 km máttum við ganga í brotsnjó, þ.e. brotnaði undan okkur skelin í hverju skrefi og maður datt niður.  Skiptumst á að vera fremst til að létta gönguna og þegar nær dró fór sólin á bakvið skýjin og smá gola í bakið ýtti okkur áfram.  Einhversstaðar var ákveðið að GPS segði að við stæðum á vörðunni á Hábungu 914m og þar var smellt einni mynd af og svo gengið áfram.

Í geggjuðu útsýni af toppi Esjunnar.  7 klst og 18 km síðar komum við niður á bílastæði eftir að hafa klöngrast við sæmilegar aðstæður niður af Þverfellshorni og hefðbundna gönguleið.
Snilldargöngudagur og gaf þessu páskafríi raunverulega góðan stimpil og má sjá video og myndir af því hér einhvers staðar.  Skemmtilegar myndir og video má sjá á þeim síðum.

Föstudagurinn Langi 10. apríl
var í rólegra lagi og var gangan stutt þennan dag eða hringur útí 10 11 enda kvöldið planað fyrir að rifja upp gömul kynni bekkjarfélag á Bifröst fyrir 10-12 árum síðan.  Lítið um það að segja en hélt Bifrópartý þar sem kíkt var á gamlar video myndir af okkur á árshátíð Bifrastar þar sem lagið var tekið.  Steig ég þar upp í líki Mel B í kjól og hárkollu með öðrum Spice stúlkum og söng af mínum lífs og sálar kröftum.  Mikið hlegið yfir þessu og síðan var Singstar sett í og við sungum Abba, Queen og fleira fram eftir nóttu.  Fínasta skemmtun og nokkrar myndir hér  fyrir Facebook notendur.


11. apríl laugardagur
var tekin snemma eftir lítinn svefn og ræst kl. 07:30 af Einari vini mínum sem mættur var á 38" Mjallhvíti.  Haldið var í Landmannalaugar með "litlu deild" 4x4.  Veðrið lék við hvern sinn fingur og útsýnið draumur alla leið í Laugarnar.  Vorum 4 bílar með enn 40" Landcruser í fararbroddi.

Var furðuhress eftir lætin kvöldið áður og prógrammið síðustu daga og hituðum við puslur í Landmannalaugum og héldum til baka.  Fallegt að vanda í Laugunum en fátt um fólk en allt landið kringum laugarnar kúnstugt að sjá.  Heitur reitur sem hreinsar allar snjó í kring svo það virðist sumar á köflum.

Færið var lítil fyrirstaða, hart og sæmilegur snjór en samt minni en oft áður þarna.  Festum bílana nokkrum sinnum til að fá eitthvað út úr þessu og vorum komin í bæinn um kvöldmatarleiti og bauð Dísa hans Einars mér í súper Lagsania.  Fallegar myndir úr þessari jeppaferð má finna hér einhversstaðar.

12. apríl Páskadagur
var ég vaknaður fyrir aldir.  Lét þó páskaeggið vera þar kl. 10 þegar ég stóðst ekki mátið að lesa málsháttinn auðvitað.......   Nei, heyrði í Önnu Rós rétt fyrir hádegi sem var á leið á skíði með nöfnu sinni Önnu og slóst ég með í för.
Veðrið en alveg ljómandi en aðeins meira af fólki en síðast þegar ég fór og því bið í lyfturnar.  Elínborg mætti líka á skíði og kíktum við á nokkur stökkbretti ma. í Suðurgili en þar var minna af fólki.  Endaði nú á því að taka of stórt stökkbretti og misreiknaði hæð þess og flaug nokkra metra og skrapaði snjóinn.  Ekki stórslys en smáeymsli nokkra daga á eftir.
Rétt náði í páksakalkún hjá systur minni undir kvöldið og var svo frameftir nóttu í pictunary með önnunum, bræðrum Önnu Rós, Ömmu hennar og Ellu.  Stelpurnar tóku okkur í bakaríið.

13. apríl 2 í páskum
var tíðindalítill en tók á móti snúðunum mínum eins og ég geri annan hvern mánudag og við kíktum  í langt sund, kíktum til Heiðu systir og fórum að leiði ömmu í Grafarvogskirkjugarði.

14. apríl þriðjudagur
komin og páksafríið búið en get nú ekki sleppt að bæta því í þessa mögnuðu 8 daga törn hjá mér.  Fór á Vífilfellið í góðri rigningu með Elleni vinkonu minni sem var þar í fyrstu göngu sinni.  Ekki auðveld fyrsta ganga en við gengum upp vesturgilið norðan megin við Vífilfell og fórum upp mjög bratta snjóbrekku.  Gekk nokkuð vel og góð mæting hjá Toppförum og vorum við misblaut í galla sem ekki eru hannaðir fyrir íslenska rigningu þó að þessu sinni hafi ekki vindur fylgt með heldur milt vorveður.

Önnur rigningarferðin mín með Toppförum í rigningu og þoku og sú þriðja sem hópurinn er þar við sömu aðstæður.  Sjá myndir hér.

Held að "" vikan hjá mér verði ekki endurtekin á næstunni en það er aldrei að vita, gefur lífinu sannarlega gildi.



07.04.2009 13:53

Skessuhorn 28. mars 2009

Jæja, vildi nú segja nokkur orð um ferð okkar Toppfara á Skessuhorn síðasta laugardag marsmánaðar.  Örlagarík var ferðin en komum að því síðar.  Búið var að fresta ferðinni einu sinni vegna veðurs og gat nú brugðið til beggja vona eins og gengur með þessa ferðir.  Enda þegar keyrt var í átt að Skarðsheiðinni var frekar dimmt yfir og hvasst á láglendi.

Við vorum komin af stað um klukkan 8:30 frá Skarðheiðarvegi en vegna lítils snjós niðri þá keyrðum við 1km inn eftir honum.  Auðvitað byrjuðum við á því lækka okkur og töpuðum þessari litlu hækkun sem bílarnir fóru.  Skemmtilegt gil milli Sauðahryggs og Sauðadals varð á vegi okkar og tók smá tíma að finna steina til að tipla á yfir.
Veðrið var yndislegt og ætlaður vindur lét ekki á sér kræla og við fækkuðum fötum.  Sáum vel yfir Skessuhorn sem er sannarlega einn flottasti tindur landsins ásýndar.
Þegar ofar dró jókst snjómagnið og förin urðu dýpri en samt ósköp þægileg göngu.  Þegar við vorum gott sem undir Skessuhorni byrjaði að hvessa og voru ágætis strengir á köflum.  Þegar við bættist snjófjúk síðar voru snjógleraugun tekin upp.  Væsti nú ekki um mann þrátt fyrir mikin vind þ.e. þangað til móða byrjaði að herja á mig.  Rándýr snjógleraugu fyrir hjálma, en stóðu sig ekki sem best þar og fengu að fjúka ofan í poka aðeins ofar.
Þegar hér var komið og við vorum komin í 600m hæð og sunnan megin samsíða Kötlum var snjórinn orðin verulegur á köflum. Tók fararstjórinn okkar þá fyrsta snjóflóðaprófílinn til að tryggja að leiðin væri örugg.  Það var í lagi og við þrömmuðum áfram rúman kílómetra undir Skessuhorninu án þess að hækka okkur enda vorum við á leið að uppgönguleiðinni.
Vindin lægði þar verulega og varð mun hægara um vik enda án gleraugna.  Einhvers staðar þar var annar snjóflóðaprófíll tekinn og benti hann til þess að gæta yrði varúðar og var það gert.  Einnig var farið í mannbrodda og ísexin tekin til brúks.  Fararstjórinn rifjaði upp viðbrögð við falli og héldum við áfram.
Svo var byrjað að hækka sig og var skyggnið upp frekar lítið þó sæist í klettanippur efst undir hryggnum.  Við gengum ansi bratt hér og fórum beint upp í fínni halarófu.
Í rúmlega 800 metra hæð fórum við upp smá klettahrygg.  Þar bætti verulega í vindinn og fórum við þar aðeins varlegar en áður enda klaki undir fót þó broddanir virkuðu traustir.  Í tæpum 900m hinkruðum við aðeins á meðan fararstjórinn fór á undan og skoðaði möguleika um uppgöngu.  Var tekin ákvörðun um að fara uppá hrygginn sem liggur á Skessuhorn en ekki alla leið á hornið enda mjög hvasst á leiðinni eftir hryggnum.

Það var stutt leið og við héldum hópinn þétt uppá hrygginn þar sem hinum megin var þverhnípt og mátti sjá nokkur hundruð metra þar niður í næstum lóðréttu falli.  Einnig sáum við Skessuhornið er við horfðum eftir hryggnum í rúmlega 500m fjarlægð en það varð að bíða betri tíma.  Eftir örstutt stopp og myndatökur héldum við niður og var reynt að halda hópinn eins og hægt var.
Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum varð óhapp á leiðinni niður og vorum við rétt búin að lækka okkur um 40-60 metra þegar vinkona okkar missir fótana og rennur fram fyrir sig á klettaskör nokkrum metrum neðar.  Þar sem við vorum í næstum 45°halla var hraðinn mikill og hafði hún engin tök að setja öxina fyrir sig og rak höfuð í klettana og rúllaði svo niður brekkuna fyrir neðan.  Ekki fá nokkur orð því lýst hvað fór fram í huga mínum á meðan þessu stóð og næstu mínútur á eftir en ljóst er að tímin stóð kyrr og svo leið hann afskaplega hægt.......
Held að ég sjálfur þrátt fyrir töluverða reynslu af notkun ísaxar og brodda í fjölda ferða hefði ekki náð að stoppa mig áður en að klettunum kom.  Það varð því mikið slys að höfuðið skyldi fara þar á undan því ég er nokkuð viss um að hefði hún skoppað yfir og niður þessa 2 metra sem voru þar fyrir neðan í mjúkan snjó hefði hún náð að stöðva sig.  En þarna rúllaði hún niður án þess að geta nokkuð að gert enda í roti um 150 metra áfram í miklum bratta eða rúmlega 80 metra lækkun.
Það var mikið lán að við höfum frábæran og reyndan fararstjóra sem tók fór í loftköstum á eftir henni niður og náði fram fyrir hana og stöðvaði.  Lán var líka að fyrir neðan klettana var snjóbrekka en ekki ís eða harðfenni og hægði það á henni því annars hefði getað farið ver en ekki var langt í mun hærri kletta fyrir neðan.
Það sem á eftir kom endaði í 8 tíma björgunaraðgerð þar sem að komu fjöldi björgunarsveita með allan tiltækan útbúnað og mannskap.  Við lítill gönguhópur 800 metra hæð gátum lítið annað gert en að halda hita á vinkonu okkar og tryggja skjól fyrir hana.  Ekki var hægt að færa hana niður því við vissum ekki um hvaða áverka hún hafði og var því allt kapp lagt á að byggja skjól fyrir hana og klæða hana í öll þau aukaföt sem við höfðum og meira að segja bakpoka o.fl.   Mikil lukka var að 4 snjóskóflur voru með í ferðinni.
Fararstjórinn okkar stjórnaði sem herforingi og hélt okkur öllum að verki en við skiptumst á að moka snjó, halda hita á henni með líkömum okkar og svo sinna öðru eins og að næra okkur. 
Það var ekkert fát á fólki og var unnið skipulega og lítill skjólveggur varð á nokkrum tímum að ágætis snjóskýli en þess var þörf enda byrjað að hvessa og snjókoma jókst þegar leið á daginn.  Til merkis um það þá fennti bakpoka, stafi og annað fljótt í kaf og ljóst að aðstæður breyttust fljótt í brekkunum og juku á ýmsa hættu s.s. snjóflóð.  Það var mikið lán að allir voru mjög vel búnir og gátu því haldið út þann tíma sem við biðum eftir hjálp í 800metra hæð og vorum við öll með hitabrúsa og næringu.  Auðvitað skalf maður aðeins eftir að liggja í snjónum að hita vinkonu okkar en því var kippt í liðin með smá mokstri eða flutningi snjóköggla.  Það hjálpaði líka að með tímanum þá virtist hún koma betur til rænu þó hún væri í "móki" á köflum.
Það leið langur tími þar til fyrstu björgunarmenn komu að eða 5 klukkustundir og þó að í upphafi hafi tíminn liðið hægt þá var það allt í einu staðreynd að klukkan var orðið sjö þegar björgunarmenn með börur komu á staðinn.  Við vorum auðvitað hæstánægð að nokkra "T"rausta kappa úr HSSR fyrsta á staðinn enda þekkti ég til þeirra og svo komu þeir hverjir á fætum öðrum og beittu ýmsum brögðum til að koma útbúnaði upp.


Þrusuðu vélsleðum hátt upp eftir hlíðunum og þegar þeir stoppuðu á hvolfi eða ekki var haldið áfram með sjúkrabúnað til okkar, m.a. félagi minn úr HSG.  Þökk sé þeim öllum og öllum sem að björguninni komu sem og starfsfólki Landspítalans Fossvogi.
Þegar við vorum búin að flækjast fyrir björgunarmönnum í um klukkustund héldum við niður en aðra leið heldur en við komum upp.  Haldið var beint niður hlíðina í átt að vélseðamönnum björgunarsveitanna sem fluttu okkur að snjóbíl Björgunarsveitinnar Ok.  Þar biðum við í rúman hálftíma, fengum samlokur, gúmmísnuð, sviðasultu og fleiru frá rausnarlegu björgunarfólki.  Síðan flutti snjóbíllinn okkur inná Skarðsheiðarveg þar sem björgunarsveitarbílar fluttu okkur að okkar bílum.

Þar mættu okkur fulltrúar Íslenskra fjallaleiðsögumanna sem færðu okkur kakó og með því, meira að segja smá koníaki út í fyrir þá sem ekki keyrðu.  Kakóið kom frá sveitabæ í nágrenninu og þökkum við það enda um ekta súkkulaði að ræða.  Það var mikill léttir að sjá stuttu síðar þyrlu Landhelgisgæslunar fljúga yfir en þá vissum við að vinkona okkar fengi flugferð í bæinn en þyrfti ekki að skrölta með öðrum farartækjum niður ójöfnur og hóla Skarðsheiðarinnar.
Auðvitað gæti ég farið mun nánar ofan í öll mál hérna en læt þessa stuttu frásögn duga sem mína upplifuna af ferðinni sem getur nú farið í reynslubanka okkar og farsæl á þann veg að vinkona okkar er á góðum batavegi og mun fyrr en síðar snúa til fjalla á ný.

Bæði eru síðunni minni myndir hér af ferðinni og 10 mínútna langt video en þar sjást að vísu ekki myndir af slysstað en það bíður betri tíma.


01.04.2009 16:18

Samstöðuganga Esjunni

Hittumst í gær um 27 Toppfarar á bílastæðinu við Esjuna. Fórum aðeins yfir atburði helgarinnar og stöðu sjúklingsins okkar.  Gengum svo um 20 uppað skilti 4 við ána.  Það var farið rólega yfir og að auki var verulega hvasst og gekk á með hríðum.  Smá skyggni á milli og glytti í Þverfellshornið þegar við nálgumst.
Að lokinni fínni göngu var farið í Lágafellslaug í heita pottinn, málin rædd og skrafað um framtíðinna.  Enginn bilbugur á fólki um framtíðina og mikið rætt um væntanlega ferð á Hvannadalshnúk í maí enda í næsta mánuði og seinna vænna að setja sig í gírinn.


sjá lítið bjána video sem ég tók líka en það var nú á símann þannig að gæðin eru eftir því.

Smella hér

30.03.2009 15:16

Kerhólakambur 24. mars 2009

Hefðbundin þriðjudagsæfing Toppfara var að þessu sinni í erfiðari kantinum sökum mikils vinds og kulda.  Gengið var frá Búhömrum inn Glúfurdal vestan í Esjunni.  Eftir nokkurhundruð metra upp gljúfrið var haldið upp klettana í sæmilegu brölti en samt greinilegum slóða uppá fyrsta og brattasta hrygginn.  Verulega hvassa var þar með norð austan strekkingi og hafði maður lítil tök á að njóta útsýnisins sem blasti öðru hverju við aðlalega til vesturs þar sem sólin skein.  Á Kerhólakamb sást hins vegar ekkert enda Esjan með þykk ský yfir sér þegar þarna var komið,  Þrátt fyrir vindin var færið undir fót gott, ekki of mikill snjór og passlega hart, en þarna getur verið mikil drulla í vætutíð.
Eftir að hafa þokast upp eftir hlíðinn með frekar mörgum en stuttum spottum fór nú að nálgast og höfðu þá tveir úr hópnum ákveðið að snúa við, enda aðstæður ekki sem bestar.  Síðstu 200 metrana var komin mikill snjór og reyndum við eftir megni að skera í hlíðarnar og inní snjóinn þar sem brattast var svo þeir sem á eftir kæmu gætu fótað sig.
Þegar við komum uppá brún var svo 4-600 m kafli að hæsta punkti en á leiðinni þangað tóku veðurguðirnir skyndlega uppá því að feikja burtu þokunni og skrúfa fyrir vindinn.
Launin óviðjananlegt útsýni og frábært að ver á toppnum.  Auðvitað með góðu fólki og eftir nokkrar myndir héldum við í rólegheitum niður aftur, renndum okkur smá mesta brattann og þegar niður var komið var komið myrkur.


Sjá fleiri myndir hér 

Video af göngunni

 

 


 

28.01.2008 17:19

Baulan 937 M

Jæja, gekk á laugardaginn ásamt 14 Toppförum á tind Baulunnar í Norðurárdal Borgarfirði.  Var svolítið slappur daginn áður, búin að vera með hálsvírus en lét mig hafa það.  Veðrið var sæmilegt í göngunni, 4-6 stiga frost, bjart en svolítið hvasst.  Fengum fínt veður upp,  utan þess að auðvitað skall á hríð akkúrat meðan við vorum á toppnum.  Vorum 4 klst. og kortér uppá topp en ca. 2 og hálfan tíma niður.
Mikill snjór var neðst í fjallinu og niður í bröttubrekku og þurftu við að vaða snjóinn á köflum upp í klof.  Nokkrar myndir komnar teknar á símann.
 Myndir hér.

Einnig má sjá video undir myndböndum eða bein 50sek video af uppgöngu á Baulu.

23.01.2008 22:57

Stuttur næstum bæjartúr

Jæja kíkti aðeins út í kvöld. Átti að vera æfing hjá HSG, en frekar dræm mæting hjá föstum félögum í fjórhjólaflokk.  Einar mætti og svo Óli Ingi en hann kemur vonandi sterkur inní þetta.  Amk alltaf gaman að fá fá fleiri með.
Jæja fórum frá Garðabænum suður í Hafnarfjörð að hesthúsunum við Kaldársel.  Tókum línuvegin norður að Elliðavatni og þaðan austur með vatninu út á þjóðveg.  Snjórinn nokkurn vegin farin en þetta var fínt samt.  Óli tók línuna heim þarna en ég og Einar kíktum aðeins lengra austur eftir slóðum innað Hafravatni.  Enduðum svo við Reynisvatn, þar sem leiðir skyldu.

Sjá myndir hér
Flettingar í dag: 11
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 306973
Samtals gestir: 38965
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 07:20:49

Eldra efni

Tenglar

Um mig

Nafn:

Gylfi

Heimilisfang:

Grafarvogurinn

Staðsetning:

Reykjavik

Um:

Uppalin í Mosó og Grafarvogi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Dances with wolfes

Uppáhalds tónlist:

Queen

Uppáhalds manneskjur:

Strákarnir mínir

Uppáhalds matur:

Samloka með skinku osti og tómatssósu