Myndasíða Gylfa

Blogg, Photos, Travelstories, videos

18.05.2009 11:01

Hvannadalshnúkur

Síðasti mánuður á ferðalagi um landið 14. apríl - 17. maí + HNÚKAFERÐIN SVAKALEGA
Búin að stefna að stóru markmiði í allan vetur,  Nefnilega göngu á Hvannadalshnúk 2.109,6 metra háan tind og þann hæsta á Íslandi eins og hver Íslendingur veit. 
Eins og fram kemur í fyrra bloggi þá var ég búin að sanka að mér nokkrum ferðum og var duglegur um páskana og hélt auðvitað uppteknum hætti áfram.  Fer hér aðeins yfir lokaaðdraganda að Hvannadalshnúk en enda auðvitað áhonum.


14. apríl Vífilfell 655m
Jæja reynt að komast á Vífifell í smá skyggni.  Tóks næstum því núna, en við fórum upp norðvestan megin í gilið þar.  Ellen vinkona mín mætti með í sínu fyrstu ferð með Toppförum og stóð sig með prýði.

Ekkert súperveður en það skipti ekki máli.  Stemmingin var fín og vor í lofti þrátt fyrir smá bleytu.  Sjá ferðasöguna í máli og myndumhér.  Einnig er hér 25mb myndband af göngunni



18. apríl Tindfjallajökull
Snilldarferð með 15 Toppförum og Róberti fjallaleiðsögumanni uppá Ýmir 1475m.  Gengum 22km á tæpum 9 klst.


Gekk mjög vel þrátt fyrir að skyggnið á sjálfan Ými hefði verið lítið.  Þurftu að nota brodda og axir undir lokin enda bratt og hált síðustu 100 metrana upp.  Nánar um ferðina í máli og myndum hér.

21. apríl Drottining og Stóra kóngsfell
Þriðjudagsgangan var þægileg eftir langa Tindfjallaferð og nutum við loksins ágætis veðurs með útsýni yfir höfuðborgina.  Uppgönguleið er rétt við þar sem Bláfjallaafleggjarninn beygir að Bláfjöllum til suðurs og Hafnarfjarðar til norðurs. 
Ekki stórafrek en mjög góð ganga fyrir sálina og umhverfið mjög skemmtilegt, eldborg, hraun og mosi.  Ágætis hópur mættur amk 20 manns.

Í Toppförum er eins og alkunna er föngulegur hópur fríðra kvenna.  Þótti sérstök ástæða til að mynda þær að þessu sinni með Stóra kóngsfell í baksýn. Takið eftir litadýrð gallanna hjá þeim.

Ekki voru komnar fleiri myndir af þessari ferð en þær koma kannski síðar.

25. apríl Blikdalshringur Esju
Aftur var gengin góður hringur uppá Esjunni í aukaferð með nokkrum Toppförum og góðum vinum.  Að þessu sinni var farin svokallaður Blikdalshringur.  Gengið var frá vigtarplani við Hvalfjarðargöngin austur fyrir Blikdalinn.  Þurftum að vaða skemmtilega á en við hefðu getað sleppt því ef við hefðum ratað rétta leið strax.  En auðvitað bara hressandi fyrir sál og líkama að taka smá fótabað í upphafi ferðar í fallegu gili.



Frá ánni var haldið upp og austur fyrir Tindstaðafjall en það er ægifagurt og kaman að ganga þröngar brúnir þess.

Fjallinu fylgt eftir inná meginhluta Esjunnar og uppá Hábungu 916m. en hluti hópsins sneyddi hjá henni enda vorum við þar líka fyrir 2 vikum.  (ofvirkt lið maður)


Þá var haldið niður í fínu færi framhjá Þverfellshorni, uppa á Kerhólakbam og niður Kambshorn, vesturhrygg Blikdals um Smáþúfur að vigtarplani. Urðu þetta samtals 24,2km á 8,5klst.  Fínn dagur það.

Með í för voru Íris, Kjartan, Roar, Gylfi, Rósa, Þorbjörg og Linda Rut
Meira af þessari göngu í máli og myndum
hér.  Myndband væntanlegt mjög bráðlega af þessari æðislegu göngu í súperfæri og veðri.

1. maí 2009 Kröfuganga....
Ganga með 7 toppförum á 944 m. tind Baulu í Borgarfirði. Fórum upp hrikalega grýttar hlíðar Baulu eftir þægilegum sköflum þar til við náðum í snjó og klaka.  Þar þurfti að setja broddana undir en sumir notuðu létta brodda sem var á mörkunum að duga eins og aðstæður voru.

 

Gengum á broddum og náðum á 3 tímum á toppinn í "brúnalogni".  Síðasti parturinn strembinn sökum snjóhengju og þurfti að gæta ýtrustu varúðar þar.  Á toppnum vorum við í hálftíma og nutum lífsins en sjaldan svona aðstæður á háum fjallatindum.  Horfuðm yfir sveitasetrið hennar Soffíu og athuguðum mögulega niðurgönguleið fyrir sumarferð.  Hópurinn þó sammála um að hentugra væri að ganga Bauluna í þessu færi frekar en auðu eins og á sumri.  Bara of stórgrýtt.


Mættir voru Bára,Helgi,Örn,Soffía,Ingi,Hildur,Gylfi

Tókum góða 2,5 tíma í stórgrýtta niðurleiðina en það var ekki mikið fljótara en uppgangan. Frábær ganga í fínasta veðri með toppfólki að vanda.  Nánar í máli og myndum 
hér  og ágætis video 92 mb hér.

Ferð Toppfara á Hvannadalshnúk 15-17. maí
Jæja loksins komið að stóru ferðinni og var hist kl.09 í Ártúnsbrekkunni þar sem hluti hópsins var mættur til að taka smá forskot á sæluna og ætlaði að ganga Fjaðrarárgljúfur á leið í Skaftafell.  Restin ætlaði að hitta okkur fyrir kvöldmat á Hótel Skaftafelli þar sem við gistum.

Fjaðraárgljúfur
Eftir ís á leiðinni var stoppað rétt áður en að Klaustri kom við gljúfur kallað Fjaðraárgljúfur en það er vinsælt að ganga eftir því ofan við og skoða.  Við ákváðum að ganga eftir því ofaní og fylgja að upptökum um það bil 2 kílómetra.



Klettarnir verða allt að 100 metra háir inn af gljúfrinu og blasa tignarlega yfir okkur.  Auðvitað þurfti að vaða ána í gljúfrinu margoft og þurfi að passa sig að renna ekki á hálum steininum enda straumurinn sums staðar nokkuð strerkur.


Ekki var þó um neina stórhættu að ræða og ættu þessi leið að vera við flestra færi sé ekki mjög mikið í ánni.  Við hjálpuðumst auðvitað að og héldumst oft hönd í hönd.



Frábær ganga og gott til að brjóta upp annars stíft gönguplan hópsins á fjöll og fjallatinda.  Fleiri myndir hér og 152 mb video hér.

Hnúkurinn
Vegna óhagstæðrar vindaspár var ákveðið að leggja af stað aðeins fyrr eða kl. 03 um nóttina í stað kl. 05.  Ljóst var strax við skoðun á spánni að það leit ekki vel út með vind uppi á jöklinum.  Það var þrátt fyrir afskaplega gott skyggni og heiðskýrt veður yfir öllu landinu. Það var því ákv. að strax eftir kvöldmat og stuttan fund að allir ættu að skutla sér í bólið um kl. 21.  Sjálfur ekki alveg á því svefnróli og því lítið um svefn hjá mér einnig sem spennan fyrir ferðinni hefur haft sitt að segja.  Eftir hafragraut, brauðmeti og drykk í morgunmat var ég eins tilbúin og ég gat fyrir ferðina, búin að ganga á fjölda fjalla síðustu vikur og mánuði.



Við lögðum af stað frá Virkisjökli um kl. 03:30 en þá var orðið nokkuð bjart enda nær íslenska sumarnóttin hámarki snemma.  Það sást vel til jökulsins þrátt fyrir smá skýjahulu öðru hvoru yfir hnúkinn sjálfann. 



Þegar að jöklinum var komið eftir smá sandbleytu og eyrar var farið í brodda en það var minniháttar brölt uppá hann. Þar var hægt að taka af sér broddana aftur og við tók ganga í ægifögum fjallasal upp Virkisjökul.



Á leiðinni mætti manni skemmtileg sýn því jöklamús er smásteinn með mosa allan hringin og mjög sjaldgæf var þar í smá magni.  Einnig drundi tvisvar í logni næturinnar þegar jökullinn hreyfði sig enda falljökull og mikið afl á ferð.  Var það mjög tilkomumikið.
Það tók síðan smátíma að finna rétta leið fram af skriðjöklinum efst því leiðii er að jafnaði ekki farinn lengur og er leið upp Sandsfellsleið farin í 95% tilvika í dag (algjörlega ágiskun útí loftið...).



Fyrir hop jökulsins var þessi leið sú algengasta og sparaði þá allt að tvo klukkutíma.  Sú var ekki raunin núna og heyrði ég að búið væri að tapa þeim sparnaði með breytingum sem orðið hafa á síðustu árum.



Við þokuðumst áfram upp með Rauðakamb á hægri hönd og all hrikalega flotta íshamra allt í kring.  Þegar í snjóinn var komið þyngdist færið mjög því brjóta þurfti harða skel í snjónum og svo var mjúkt undir.  Reyndi það mikið á fremstu menn og leiðsögumennina okkar.

Mjög brattar brekkur voru alla leið upp að svokölluðum Kaffikletti en þangað upp vorum við allan tíman í yndislegu veðri og sólin faldi sig á bakvið háa tindana og skýldi okkur fyrir hita og sólbráð.

Rétt fyrir kl. 08 eftir 4,5 klst. göngu komum við að Kaffikletti og tókum góða pásu og bættum á orkuforðann.  Ég var með 2 lítra vatnspoka með powerade og drakk af honum jafnóðum upp en bætti á mig Kakói á þarna og borðaði grófa samloku og smá kex.  Leið bara súper vel og ánægður með stöðuna hingað til



Skipt var í 3 línur en við vorum 20 Toppfarar og einn fjallaleiðsögumaður fyrir hverri línu.  Ég fór aftast í línu hjá Jóni Gauta með Guðbrand fyrir framan mig.  Þá var haldið á stað og var núna snjórinn skárri, þ.e. ekki þurfti að berjast í hverju skrefi en í staðinn varð hann harðari og því ofar sem við fórum því hálla var.  Sjá mynd hér að neðan. 



Einnig byrjaði núna að blása hressilega svo við áttum erfiðara með að fóta okkur og endaði með því að við fórum í brodda og settum upp skíðagleraugu og ég fór í skelina.  Kl. að verða 10 ákv. Siggi að snúa við enda með slæman krampa í fætinum og fylgdi Ingi bróður hans honum niður.  Til að tryggja öryggi þeirra fylgdu Brynjar fjallaleiðsögumaður og Guðjón þeim þó niður að Kaffikletti og náðu okkur svo við Dyrhamrar en þá vorum við búin að hamast í sömu brekkunni í stífum mótvindi í ca. 2klst.



Hann er æðislega flottur Dyrhamarinn með Hvannadalshrygginn til vinstri.  Eiginlega var ekki annað hægt en að vera dofallinn yfir útsýninu og hrikaleika náttúrunnar á þessum stað þrátt fyrir rokið.  Sjá má það aðeins betur á meðfylgjandi myndasyrpu og video.
Sjálfur byrjaði þó að örla hér á vandamáli sem átti eftir að verða mjög mikið fyrir sjálfan mig, nefnilega þróttleysi sem virtist koma alveg aftan að mér enda búin að vera mjög hress framan af.



Uppúr kl. 13 vorum við komin eins hátt og ég komst í þessari ferð sem er rétt um 2000 metra, þá var veðrið orðið mjög hvasst og fleiri á því einnig að hærra yrði ekki komist.  Auðvitað voru flestir Toppfara harðir í að reyna hvað sem væri óháð aðstæðum og þegar ljóst var að ekki færu allir upp færðum við okkur til í línum og ég hélt af stað niður á sléttuna undir Hvannadalshnúk ásamt Viðari fjallaleiðsögumanni, Helgu, Hildi, Guðbrandi og Halldóru.

Þrátt fyrir að þarna hafi blasað í hnúkinn gegnum skafrenninginn voru samt amk 1,5 klst.í toppinn miðað við veðrið þó einungis 100 metra hækkun væri þá eftir.  Eins illa og mér leið á þessu augnabliki laust þeirri hugmynd samt uppí huga mér að reyna við það.  Eins gott að það varð ekki úr og ca. 10-20 mínútum síðar þegar við höfðum lækkað okkur niður fyrir sprungusvæðið undir hnúknum og vorum að taka af okkur broddana sáum við restina af toppförum koma til baka en þau höfðu þá einnig fengið nóg og fararstjórinn ákveðið að lengra yrði ekki farið.  Við þessa smá hækkun hafði bæst meira í vindinn og þau fengu hreinlega klakaskothríð á móti sér.

Auðvitað gríðarleg vonbrigði fyrir þá sem voru hér annað árið í röð að reyna við tindinn en þau höfðu hækkað sig um 40 metrum hærra og áttu bara 60 metra hækkun á tindinn.  Í ljós kom eftirá að þarna undir hnúknum mældust um 35metrar á sekúndu stuttu áður þannig að segja má að þarna hafi ekki verið hundi út sigandi.

Jæja, niðurleiðin...hmmmmm...
Eins ofsalega ánægður ég var með þessa flottu leið upp Virkisjökulinn og að Dyrhamri þá var ég jafn skelfilega illa haldinn á leiðinni niður og var hún mér í alla staði fáranleg upplifun.  Hvort það var lélegt úthald, næringarleysi, þreyta eða skyndiveikindi eða ristillinn hjá mér þá missti ég gjörsamlega allan kraft.  Ég hékk aftan í Guðbrandi og Viðar sem fór fyrir línunni eftir sléttunni með vindinn sem betur fer á ská í bakið eða í bakið þegar á Sandfellið kom.  Þurfti ég mörgum sinnum að stoppa og leggjast niður og hvíla mig í 1-2  mínútur áður en ég gat haldið áfram.  Þar svimaði mig og átti erfitt með að einbeita mér og þurfti að berjast fyrir hverju skrefi.

Var þarna samt búin að drekka 2,7 lítra af vökva og var dælt í mig orkugeli og kók, sem ég veit ekki hvort höfðu önnur áhrif en þau að ég fékk líka svakalega í magann og langaði að æla að auki.  Svona var þetta meira og minna niður og þakka ég Viðari fjalalleiðsögumanni fyrir að hafa pínt mig niður þá leið sem við þurftum að vera í línu, þ.e. niður af jöklinum.  Margar hugsanir flugu í gegnum  hugann og ein var sú hversu lengi björgunarsveitirnar væru að komast frá Hnappavöllum að mér ef ég myndi bara líða útaf.  Ég sá að það væri ekki gott að þurfa að bíða eftir því og harkaði því af mér.  Þá var ég einnig búin að ákveða það að ég "hataði snjó" en það er kannski fullstert tekið til orða svona eftir á........

Það var hífandi rok alveg niður í 1000 metra og því hvergi skjól að fá.  Um síðir voru seinni línurnar búnar að ná mér og tók þá Jón Gauti pokann af mér og Simmi og Guðjón með honum héldu á honum niður og kannski fleiri til.

Ég hélt að kannski myndi orkan koma ný því við vorum bara að ganga aflíðandi niður en svo var ekki og leiddi Ingi mig síðustu metrana inná hótel herbergi að ganga sjö.  Hafði þá gengið 24 km á tæpum 15 og hálfum klukkutíma.

Niður Sandfellið fékk góða hjálp frá félögum og vinum í Toppförum sem studdu mig, reyndu að fá mig til að drekka og gáfu mér minn tíma til að komast niður og var ég um klukkustund síðar niður en fyrsti maður sem reyndar flýtti sér vegna mikils hausverks og vanlíðan.  Það voru m.a. Helga, Halldóra, Kristín og Hildur sem hjúkruðu mér, en einnig Roar og svo kom Björgvin fjallaleiðsögumaður síðastur.

Ekki vantaði tilgátur um hvað hefði ollið þessu veikindum hjá mér en ég lagði mig í 3 tíma niðri á hóteli og var svo orðin nokkuð góður en þá með um 38°hita sem var horfin morgunin eftir.  Náði að smakka afmælisköku Toppfara seint um kvöldið en fór samt fljótt í rúmið.

Svona var það þennan dag en á heildina lýt ég á ferðina sem einstaka upplifun og mjög sáttur við daginn þrátt fyrir sögulegar ófarir mínar.  Ég þakka auðvitað ferðafélögum mínum fyrir hugulsemina og þá aðstoð sem ég fékk frá þeim.  Sérstaklega Hjölla, Hildi og Guðbrandi sem ég "teikaði" í línunni uppá jöklinum.....

Annars er þá bara að skipuleggja næstu ferð á hnúkinn og vittu til ég verð með...
Hér eru 
myndir og svo 250 mb video

Einnig má sjá myndböndin á facebook en þá þarf ekki að downloda þeim fyrst.

Flettingar í dag: 976
Gestir í dag: 24
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 307938
Samtals gestir: 38985
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:29:47

Eldra efni

Tenglar

Um mig

Nafn:

Gylfi

Heimilisfang:

Grafarvogurinn

Staðsetning:

Reykjavik

Um:

Uppalin í Mosó og Grafarvogi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Dances with wolfes

Uppáhalds tónlist:

Queen

Uppáhalds manneskjur:

Strákarnir mínir

Uppáhalds matur:

Samloka með skinku osti og tómatssósu