Myndasíða Gylfa

Blogg, Photos, Travelstories, videos

19.01.2008 23:14

Dalakot 19. janúar 2008

Renndi aðeins með Einari og Irmu í snjóleiðangur á fjórhjólinu. Frekar þungt færi og ekki mikill skriður á hjólunum. Gekk á með hríðum, en annars fínt, og kíktum líka á nokkra krakka í skátaskálanum Dalakoti.

Sjá myndir hér

06.01.2008 23:36

Jósepsdalur og nágrenni

Jæja, þrettánda helgin liðin og síðasti jólasveinninn á leið til fjalla.  Búin að vera frekar rólegur í vikunni en náði samt að skjótast í góða veðrinu í gær með Einari á fjórhjól.  Ætluðum að taka mjög stuttan túr og rólegan í nágrenni borgarinnar en úr varð 5-6 tíma ferð og hörku "action".

Jæja við renndum okkur úr bænum í brakandi blíðu, rétt við frostmark og logni.  Tókum stefnuna eftir Suðurlandsvegi og ætluðum að komast inná línu veg austan megin við hann.  Lentum þó í basli með ána sem við þurftum að þvera (mjög mikið í henni v/rigninga undanfarið) og ákv. að sleppa henni.  Renndum því upp á flugvöllinn við Sandskeið og tókum gamlan slóða frá grifjunum þar meðfram Vífilfellinu, kíktum á Arnarsetur (skátaskála Ægisbúa) og héldum svo áfram upp brekkurnar í átt að Bláfjöllum.  Slóðin er mjög erfiður grýttur og rofin á mörgum skoðum.  Það hjálpaði helling þegar ofar dró að nóg var að snjó í lægðum og giljum og gátum við brunað þar í góðu harðfenni upp brattar brekkur og gil, alveg þagnað til við komum upp á Bláfjallaveg 2 km. frá skíðasvæðinu.
Þar var ákveðið að halda "næstum" sömu leið til baka enda bráðskemmtileg og tók bakaleiðin mun styttri tíma.  Þegar að Sandskeiði var komið fórum við hjólaleiðina austur með Vífilfellinu upp að mótórhjólabrautinni við Jósepsdal.  Keyrðum inn í Jósepsdal og vorum á leið til baka út úr dalnum þegar Einari datt í hug að kíkja upp gilið sunnan megin sem liggur uppað Sauðadalshnúkum.  Gilið er venjulega ófært fjórhjólum en mótorkross hjól fara það oft á sumrin.  Við fórum það núna enda snjór sem hjálpaði okkur upp meirihlutann.  Það þurfti að taka á stóra sínum síðustu 20 metrana upp gilið og hjálpuðumst við að með það.
Þegar upp var komið stoppuðum við hjá gömlu A skála sem er við það að hverfa en ég man eftir að einhverjir skátar höfðu gist þar í þá gömlu góðu..  Jæja, komnir upp og því ekki annað að gera en að finna leið niður.  Tvö mótórhjól komust upp á sama tíma og við og fóru niður sunnan megin (Svínahraunsmegin).  Þar sem ég hafði farið þá leið einu og hálfu ári áður þá ákv. við að reyna.  Úr varð heljarskemmtun enda gilið tölvuvert breytt og skornara og á mörkunum fyrir fjórhjól.  Líka var snjór í hlíðinni sem þurfti að skera í hliðarhalla og hékk Einar á hjólinu hjá mér yfir þann kafla.  Tvö fjórhjól komu á eftir okkur upp, en ákv. að fara niður annars staðar.  Við hjóluðum svo að Ólafsskarði en þar stendur gamall skáli Skíðadeildar Ármans, en við skátar köllum Skæruliðaskálann eða Skæra.  Þar á ég margar góðar og skemmtilegar minningar enda gisti þar oft sem ungur skáti.  Skálinn er algjörlega ónothæfur en stendur enn og væri frábært að hafa þarna nothæfann skála.  Að þessu loknu hjóluðum við austur eftir Svínahrauni fram hjá Eldborg og út á þjóðveg.  Enduðum á Litlu kaffistofunn í kakó og smá bakkelsi en þar er gott að stoppa aðeins og líta yfir daginn.
Fleiri myndir í fjórhjóla myndaalbúminu.

02.01.2008 13:22

Gleðilegt ár 2008

Þá er komið nýtt ár og að ýmsu að huga.  Auðvitað upplifðum við síðasta ár misjafnlega.  Fyrir mitt leiti þá verð ég að koma því á framfæri að það var mitt besta af mörgum góðum í langan tíma.  Ég röksyð það með því að ég átti góðar stundir með fjölskyldunni, allir hraustir ekki síður ég sem var upp mitt besta.  Ég komst í margar frábærar ferðir og tæki langan tíma að telja þær allar upp.  Það voru bæði skemmtilegar stundir á fjórhjóli með góðum félögum úr hjálparsveitinni og Mótormaxklúbbnum og vini mínum honum Einari.  Einnig tókst ég á nokkrar öflugar göngur með skátunum og Toppförum sem eiga kannski heiðurinn í draga mig oftast á fjöll þetta árið.
Ég er nú ekki mikið fyrir áramótaheiti, en ég ætla amk að stefna að því að tryggja að þetta ár verði ekki síðra hvað ferðalög og útivist snertir.  Ég hef nokkrar minni vörður sem ég stefni að því að varða og byrja á að nefna markmið  Toppfara sem er að klára nokkra tinda á næstu mánuðum og má þar nefna Bauluna, Tröllkirkju, Snæfellsjökul, Eyjafjallajökul og Hvannadalshnúk í þessari röð og er stefnan sett á hnúkinn 3. maí næstkomandi.  Þessu til viðbótar ætla ég auðvitað að taka þátt í sem flestum vetrarferðum með fjórhjólafélögum mínum og ef einhver er með fjallaferð á dagskránni þá er ég alltaf til í að skoða fleiri möguleika.
Eitt markmið náði ég ekki að uppfylla á árinu en það var að ganga á Herðubreið, það ætlaði ég að gera með mági mínum af Skaganum.  Það gengur vonandi betur næsta sumar og ef ég er heppinn kemst ég kannski líka í fjallgöngu í Evrópu líka en þangað stefna Toppfarar í haust.
Að auki er eitt sem ég þori varla að nefna hér en ég geri nú samt og hef mikinn áhuga á en það er að komast í betra hlaupaform og stefni að því að hlaupa aðeins með Hádegisskopphópnum en það eru þau Bára og Örn úr Toppförum sem stýra honum.  Ef það tekst langar mig jafnvel að reyna við mig í Laugavegshlaupinu í sumar en það er marþon á fjöllum. Hlaupið hefst í Landmannalaugum og endar í Þórsmörk, með hæsta punkti í Hrafntinnuskeri.
Nóg um áætlanir ársins, ég var að setja inn rúmlega 70 mannlífsmyndir á myndasíðuna en var áður búin að setja topp 20 mannífsmyndirnar mínar inn.  Hér kemur restinn sem er úr ýmsum áttum, en ég á eftir að skutla inn einu myndasafni en þar leik ég aðalhlutverkið og kem fyrir á öllum myndanna.  Ég mun fljótlega bæta við fjölskyldumyndasafni en það verður læst og þeir sem vilja aðgang á það verða að senda mér tölvupóst.  Síðar má þó gera ráð fyrir enn fleiri myndum en það tekur sinn tíma að fara í gegnum myndasafn sem telur meira ein 50 þúsund myndir.

 Góðar stundir

29.12.2007 20:40

Fjórhjólaflipp á Hellisheiði 29.12.2007

Jæja komst loksins á fjórhjólið í smátíma amk.  Kíkti með Einari og Dísu uppá Hellisheiði í dag í ca. 4 tíma.  Við Einar keyrðum úr bænum og hittum Dísu svo við Litlu kaffistofuna.  Þá var brunað eftir línuveginum uppað virkjun.  Þokkalegur snjór var og hélt hann okkur ágætlega en við lentum í smá basli inní Innstadal og fórum aðeins hálfa leið inn að skála, þar sem góðar líkur voru á að sitja fastir þar inni.  Kíktum svo aðeins eftir þúsund vatna leiðinni en snérum við og fórum til baka með smá stoppi í Dalakoti.  Við festum okkur auðvitað nokkuð oft til að tryggja "funnið" og kom þá að góðum notum að hafa spil á hjólunum.
Í bakaleiðinni frá Litlu kaffistofunni í bæinn tókum við Einar svo aðeins extra á því rétt við Sandskeið og náðum að drulla okkur hressilega út og enduðum svo með því að spila hjólin upp svaka brekku með Stein sem tryggingu.  Fínn skreppur og gott að komast aðeins í öðruvísi "action" en göngurnar sem standa þó alltaf fyrir sínu.

28.12.2007 20:55

Akrafjall 28. desember 2007

Gekk með Toppförum á Akrafjall í dag.  Gengið var á Geirmundartind 640m háan og svo Háatind 562 m en það er lúmskt langt á milli þessara tveggja tinda sem eru norðan og sunnan megin á Akrafjalli.  Gönguleiðin varð í það heila 14 km.  Jón Gunnar mágur minn rölti þetta með okkur og var okkur til halds og trausts með leiðarval og söguskýringar enda uppalinn á svæðinu.  Fínir myndir koma í Myndaalbúmið fljótlega, en læt eina fljóta með af mér á toppnum með Skarðsheiðina í baksýn.

27.12.2007 20:09

Skessuhorn á 2 í jólum

Eftir ljómandi góðan jólamat og tilraunum til að sprengja magann varð ég nú að komast aðeins út og hreyfa mig.  Með frekar stuttum fyrirvara ákvað ég að slást í hópinn hjá nokkrum félögum í Hjálparsveit skáta í Reykjavík.  Ferðinni var heitið á Skarðsheiðina nánar tiltekið Skessuhorn.  Það hljómaði vel fyrir mig enda rétt nýbúin að labba á Skarðshyrnu og Heiðarshorn með gönguhópnum mínum Toppförum.  Með í för voru að mér undanskyldum; Baddi (Bjarnhéðinn), Ási (Ásbjörn), Trausti, Árni og Hjalti.

Við vorum 6 sem fórum úr bænum árla morguns eða um klukkan 7 á bíl hjálparsveitarinnar.  Ekið var að bænum Horni,norðaustan megin við Skessuhorn og tók þar bóndinn á bænum og hundurinn hans á móti okkur.  Hann hélt að við værum Flubbar, því þeir væru vanir að vera á ferðinn þarna í svipuðu veðri, eða eins og hann orðaði það. "Það ekki einu sinni hægt að fara út að pissa".  Reyndar var veðrið ekki alslæmt og við sáum smá í fjöllin að ofan þó það gæti verið betra, smá hríðar.  Strax og við byrjuðum að ganga kl. 09 byrjaði smá að létta til og tunglið lét sjá sig og lýsti okkur leið og gerði ljósabúnað óþarfan þrátt fyrir að sólarupprás hafi verið klukkan 11:26 (sólarlag 15:30).  Gangan gekk seint uppað fyrstu alvöru brekkunum, mikill og djúpur snjór setti strik í reikningin, en við skiptumst á að ganga fremst til að troða.  Oft duttum við niður alveg upp í klof og náði Baddi að bleyta aðra löppina í læk með því móti.  Hann kvartaði þó ekki enda í plastskóm með góðum innri skó sem hélt hita alla leiðina þrátt fyrir blautan fót.
Þegar við nálguðumst Katla urðu brekkurnar brattari og meiri snjór var í þeim, svo mikill að maður þurfti á köflum að hafa sig allan við til að lyfta sér yfir hann, því við sukkum mjög langt niður.  Þá var ég einnig orðin kaldur á fingrunum því ég hafði álpast til að skilja utanyfir vettlingana eftir heima.  Baddi reddaði mér þó nokkru síðar með því að lána sína, enda vel byrgur af vettlingum.
Þegar við vorum komnir uppí Katla, ákv. Hjalti að halda aftur niður, enda leið honum ekki vel með í maganum svo hann snéri við með talstöð á sér og hélt sambandi við okkur á leiðinni niður. Hér byrjaði klifur fyrir alvöru og verður að segjast fyrir 35 manninn að ég var nokkuð spenntur enda um 10 ár síðan ég notaði brodda og tvær ísaxir síðast, þá í fossaklifri.  Trausti fór fyrir hópnum flestar leiðirnar upp og stundum tók hann erfiðari leið en ég treysti mér í og þá færði ég mig aðeins til í klettabeltinu og fór leið við mitt hæfi.  Í öðru íshaftinu lenti ég í miklu gríni.... Nýju broddarinir mínir tóku sig til í miðju haftinu að detta af mér á hægri fæti.  Ég þurfti því að hafa mig allan við til að komast upp og heppinn að geta stigið með fótinn broddalausan á smá nippu til að vippa mér upp síðasta metrann.  Þetta var svo lagað og má líklega kenna um stillingum á broddunum kvöldið áður.
Flest höftin voru klifruð án trygginga, en á tveimur stöðum var ákveðið að setja línu enda þó ekki væri um mikla hæð að ræða upp haftið var súperlangt niður ef maður dytti aftur.  Trausti leiddi í fyrra og Baddi í því síðara.  Það var alveg merkilegt að rétt áður en við byrjuðum að klifra þá datt vindurin alveg niður (sterkur vestan vindur) og var hann greinilega að snúast og hélst logn alveg uppá topp, þar sem smágjóla var.  Það má segja að þetta klifur hafi verið alveg súper, enda góðar veður aðstæður og ekki mikið frost.
Loks náðum við á toppinn en það var um 15:20 og sólin við það að setjast.  Útsýnið var frábært og tilfinningin eftir þetta klifur var "sigur" enda afrek útaf fyrir sig að klifra þetta.  Eftir smá kakó og myndatökur þá fengum við hressilega kælingu en það var í formi frostþoku sem sveimaði um í kring um toppinn og náði okkur svo að lokum.  Hitastigið snarlækkaði á nokkrum sekúndum.  Við héldum af stað niður hina hefðbundnu gönguleið (sjá bók Ara Trausta) en með smá afbriðgum, því við fórum að hluta til í gegnum klettabelti sem oft er sneitt hjá.  Það var mögulegt því mjög mikll snjór var í því og við gátum sneitt það og renndum okkur svo niður stórskemmtilega brattabrekku að lokum.
Þegar þarna var komið vorum við búnir að vera á ferðinn í átta tíma sem var upphaflega viðmiðið áður en mikll snjór gerði strik í reikninginn.  Það kláruðst auðvitað batterýin í gpsinu mínu Garmin 276C, en það er hugsað fyrir fjórhjólið mitt og með stórum skjá.  Við gerðum smámistök við niðurleiðina og lækkuðum okkur helst til mikið og lentum í leiðinda grjóti og smá vatni sem við þurftum að sneiða hjá.  Stuttu síðar var komið algjört myrkur og meira heldur en um morgunin, því þungskýjað var og ekkert tuglskyn.  Síðasti klukkutímann voru sporin fyrir mig og flesta orðin ansi þung og þá hjálpaði til við að Hjalti sem var niður í bíl blikkaði ljósunum og sáum við þau langt að og höfðum góða stefnu á endapunktinn.

Jæja, ég verð að segja að fyrir mig var ferðin mikið og gott dagsverk og var ég ansi stoltur í senn og jafnframt ánægður með að finna að ég var í nokkuð góðu formi, jú miðað við að vera djöflast þetta með strákum 10-13 árum yngri ég.  Amk er ég búin með Skarðsheiðina í bili utan þess að ég ætla að hjóla fljótlega Skarðsheiðina, þ.e. leiðinna norðan Heiðarhorns og Skessuhorns, en þar er slóði.  Auðvitað má finna myndir í Myndaalbúminu hjá mér og þær teknar að þessu sinni á þrjár myndavélar.  Pentax
K10 fyrst, nr. á Pentax Optio og að lokum á símann minn.  Þær eru því í þeirri röð og því ekki allar myndirnar í tímaröð. Hendi svo inn myndbroti hér síðar.  Einnig má sjá leiðina og profílinn í betri upplausn aftast í myndaspyrpunni.  Gps punkta má svo sjá undir Skrár hér að ofan og einnig myndirnar í fullum gæðum næstu daga
amk en ég geymi þær ekki lengi þar.

21.12.2007 01:06

Fyrstu skrefnin

Jæja, þá lætur maður bara verða af því.  Búin að vera á hrakhólum með myndasafnið mitt.  Hef veriða að troða þessu inná vinnusíðuna mína hjá sottthreinsun.is, skátasíðuna 123.is/hamar og fjórhjólabloggsíðuna.  Ætti fyrir löngu að vera komin með eigin síðu.  Var nú búin að prófa, blogspott og einhverjar fleiri myndasíður en var ekki að fíla það.
Vona að ég geti kannski gert eitthvað af báðu, þ.e. sagt eitthvað frá sjálfum mér, þá aðallega ferðalögum og svo auðvitað sett inn góðar ljósmyndir.  Ég byrja á því að setja hér nokkra myndaflokka af tölvunni minni en þar má finnan ógrynnin af ömurlegum myndum og illa teknum og svo inná milli eina og eina sem kemur bara nokkuð vel út.
Í gærkvöldi kláraði ég jólakortin og notaði eins og í fyrra kortavefinn hjá póstinum 
http://www.posturinn.is/kortavefur/index.html Hann er snilld, geymir heimilsföngin og uppfærir þau.  Maður bara velur góða mynd og setur hana á kortið, setur upp kveðjur og ýtir á SEND hviss bang 27 kort farin út.  Skreytti svo jólatréð með strákunum áðan en það var fínt eftir 2 tíma action í kringlunni að leita að skóm og nokkrum jólagjöfum.





kv. Gylfi

08.12.2007 18:14

Skjaldbreiður 8. desember 2007 - Can am klúbburinn


Laugardagurinn 8. desember líður mér seint úr minnum. Við hittumst kl. 10 við N1 í Mosó og var stefnan tekin á Þingvelli. Þaðan lögðu 12 hjól bæði Outlander og Renegade + eitt á beltum. Stefnan var tekin á Skjaldbreið og ekki leið á löngu áður en við vorum komnir að rótum hans í ægifögru veðri . Færið var gott fyrir hjólin og við flugum upp á topp. Þaðan var svo haldið niður austan megin eftir smá leik í gígnum. Þar sem tíminn var góður og við höfðum góð birtuskilyrði var ákveðið að taka Langjökul líka. Var það gert með góðri hálp nokkurra vélsleðamanna sem seldu þeim sem voru lítið bensín af birgðum sínum.

Það gekk fínt að bruna uppá jökul og á hæsta punkti var tekin smá pása. Þar skiptist hópurinn og fór hluti niður aftur austan megin að Geysi en við hinir tókum stefnuna á Kaldadal. Það var smá snjór í Kaldadal og var aðeins verið að leika sér á leið inn að Þingvöllum. Þangað vorum við komnir í svartamyrki og stjörnubjörtu um kl. 18 og drifum við okkur í bæinn.

Allt gekk þetta áfallalaust fyrir sig utan þess að að bremsurnar á einu Renegade hjólinu ofhitnuðu aðeins. Tvímælalaust algjör Toppferð. Myndir hér.

10.10.2007 18:12

Hálendisferð á fjórhjólum 20-23. ágúst 2007

Þá komumst við loksins í alvöruferð á hjólunum. Hvað um það eftir smá varahlutabið í hjólið hjá undirrituðum, þá komumst við loks af stað í löngu skipulagða ferð um öræfi landsins.  Við ákváðum að hjóla alla leið úr bílskúrnum frá Einari og ókum sem leið lá austur fyrir fjall og inn Þjórsárdalinn, þar sem lokaáfylling fyrir hálendið bæði bensín og subbufæði var tekinn við Sigöldu. Því næst var brunað af stað sem leið lá upp að Þórisvatni og inná Sprengisandinn í köldu en jafnframt ægifallegu og björt veðri. Við komum um kl. 22 innað Nýjadal í myrkri en þó fullu tungli. Gekk það vel að því undnanskyldu að ég missti talstöðvina á leiðinni og týndi nokkrum tökkum af henni en það sem skipti máli virkaði í henni.
Við áðum í Nýja dal, ásamt frökkum og fleiri útlendingum og fórum snemma í háttinn. Ég var árisull og komin á fætur uppúr kl. 06 og vakti Einar svo tæpum klst. síðar. Við vorum lagðir af stað vel fyrir 8 enda langur dagur framundan, sjálf Gæsavatnaleið. Við byrjuðum á að brjóta klaka í veginum fyrstu km. enda hafði fyrst aðeins um nóttina.
Við keyrðum norður fyrir Tungnafellsjökul, og fórum inná Austurleið og svo útaf henni inná Gæsavatnaleið að Gæsavötnum. Þar stoppuðum við stutt og nutum blíðunnar.
Áfram héldum við og færðumst nær ógurlegum Vatnajöklinum sem blasti við okkur og keyrðum áfram að Kistufelli þar sem ég tók stuttan stopp í litla kofanum áður en við keyrðu grýttann Urðarhálsinn sem er ekki fyrir hvaða tæki sem er.
Yfir skræfaþunnar flæðurnar renndum við norður að Öskjufjöllum og náðum í Drekagil rétt um hádegisbil eftir eina æðisgengnustu keyrslu sem ég hef keyrt. Því verður held ég ekki lýst með orðum hvað þessi leið var skemmtileg á þessum tækjum. Þú verður bara að prófa.
Jæja smá háfleigur þarna, en að lifrapilsu og smá brauði loknum, fórum við inna að Öskju. Gengum af sjálfsögðu en það tók ca. 25 mín að vatninu, 25 mín. í myndatöku og svo aðrar 25 til baka..... 25,25,25 jebb. Síðan var stefnan tekin lengra norður þar sem Herðubreið drottning með sæmd tók á móti okkur rétt áður en við komum inní Herðubreiðalindir.
Þar ca. 2 km. áður hafði Einar tekið efitr því að bíll sem við tókum fram úr hljómaði eitthvað einkennilega og hafði orð á því að eitthvað væri að.
Jæja við hittum Landvörðin hana Gerði og vorum að spjalla eitthvað þegar bilaður bílaleigubíll með tvo útlendinga rendi í hlað. Einar skellti sér af sjálfsögðu í húddið og fann út úr hvað hrjáði greyrið og með hjálp NMT síma í landvarðarhúsinu ákv. bílaleigan að senda varahlut morgunin eftir.
Við vorum svo heppnir að þar sem skálinn var fullur af norðlenskum skólabörnum að þá skaut hún yndislega Gerður yfir okkur skjólshúsi, enda fámennt í kofanum og landvörðum hafði farið fækkandi síðustu dagana. Við slógum því upp smá veislu og grilluðum og höfðum það náðugt fram eftir kvöldi í faðmi Herðubreiðar.
Daginn eftir var blíðviðrinu slotað og komin smá mugga, þannig að tækifæri gafst til að fara í "flotgallana" okkar Einars. Við keyrðum því næst á Mývatn og tókum daginn í að renna okkur vestur eftir landinu á malbikinu að Vatnsdalnum þar sem við áttum skjól í góðu húsi hjá tengdamóður Einars. Það má nú samt nefna að við stoppuðum á Mótormax verkstæðinu á Akureyri og Einar lét tékka á hjólinu sínu í tölvunni, því hann var alltaf að fá einhver skrítin skilaboð á tölvuskjáinn hjá sér. Ekkert vafasamt kom í ljós þá og í útídúr má nefna að þegar í bæinn var komið þá kom það í ljós að rafgeymirinn var ekki að hlaða.
Jæja eftir góða nótt í Vatnsdalnum vöknuðum við upp í blautu veðri og bjuggumst við því versta, enda Arnarvatnsheiðin framundan. Fljótlega þegar uppá heiðina var komið leit veðrið þó betur út og hélst bara sæmilegt í bæinn, utan smá kafla efst á heiðinni.
Ég hafði haft af því töluverðar áhyggjur að ég myndi nú gata dekk á allri þessari leið, en varð heldur en ekki hissa þegar í ljós kom í grenjandi rigningu efst á Arnarvatnsheiðinni að Einar setti tvö göt á hægra afturhjólið. Jæja, því var snögglega kippt í liðin og keyrt sem leið lá niður af heiðinni með Eiríksjökli sem sást nú ekki vegna skýjafars.
Loksins loksins á síðustu metrunum kom sæmileg á til að kross yfir en Norðlingafljót var sú eina sem tók eitthvað af viti í enda búið að vera þurrt síðustu vikur. Í Húsafelli tókum við bensín, en héldum svo Kaldadalinn í bæinn og þegar þangað var komið talst Einari svo til að um 1.100 km. væru að baki.
Gylfi Þór

Flettingar í dag: 123
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 147
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 371323
Samtals gestir: 45901
Tölur uppfærðar: 6.4.2025 12:57:40

Eldra efni

Tenglar

Um mig

Nafn:

Gylfi

Heimilisfang:

Grafarvogurinn

Staðsetning:

Reykjavik

Um:

Uppalin í Mosó og Grafarvogi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Dances with wolfes

Uppáhalds tónlist:

Queen

Uppáhalds manneskjur:

Strákarnir mínir

Uppáhalds matur:

Samloka með skinku osti og tómatssósu