Myndasíða Gylfa

Blogg, Photos, Travelstories, videos

17.04.2009 18:20

Páskarnir 2009 Mögnuð vika

Páskarnir 2009  7-12. apríl (mögnuð vika)
Páskavikan var með þeim minnisstæðustu hjá mér þó ég leitaði mörg ár aftur í tímann.  Það má segja að maður hafi verið að frá upphafi vikunnar og alla daga yfir páskana.

Förum aðeins yfir þetta en:
7. apríl fór ég í hefðbundna þriðjudagsgöngu með Toppförum.  Var haldið í Grindarskörð sem eru rétt sunnan skíðasvæðisins í Bláfjöllunum.  Gengið var frá skála SVFÍ sem er við vegin inní Hafnafjörð gengt Helgafelli.  Gengið var til suðurs að Grindarskörðum sem einnig hluti af gamalli gönguleið frá Selvogi og inní Hafnarfjörð.  Mjög skemmtilegar upplýsingar um leiðina má finna á síðunni Ferlir.is .
Gengið var eftir vel troðinni gönguslóð merktri af stikum og vörðum.  Leiðin er mjög greiðfær og á köflum eins og malbikuð.  Auðvitað er margt að skoða í hrauninu og fullt af skútum og hraunmyndunum og eflaust leynast þar hellar.

Eftir að haf klifrað upp Grindarskarðið sjálft í fínni snjóbrekku var klöngrast uppá næsta tind til vesturs.  Nokkuð bratt klifur og þegar ofar dró kom hvít slikja þoku yfir okkur sem maður furðaði sig á enda ekki nokkurt vindur í lofti.  Nokkrar mínútur í nesti og svo áfram niður sunnan megin á eftir Erni sem fann þar nýja leið, ekki greiðfæra en þó færa.

Þá mátti sjá glitta í Kóngsgil til suðurs er þokunni létti aðeins.Eftir þægilegt rölt til baka komu nokkrir dropar á bílastæðinu til að staðfesta að við hefðum komist í fyrstu sumarferðina án roks og rigningar.  Sjá myndir á myndasíðu oghér.

Miðvikudaginn 8. apríl
eða síðasta virka dag fyrir páska var sumar í lofti og Anna Rós hringdi og vildi fá mig á skíði.  Ég er í "JÁ" stuði þessa daga þannig að ég fór uppí Bláfjöll á ný nema á skíði í þetta skipti.  Fórum klukkan 17 og náðum hálfum degi í fínu færi en smá hríð svo við tókum upp snjógleraugun í smá stund.  Ég hæstánægður með að prófa nýju "gulu" tvöföldu gleraugun mín en lenti í smá ógöngum með gamla einfalda glerið á Skessuhorni.


Kom í ljós að það hentaði Önnu illa en henni varð hálfflökurt af því enda blönduðst himinn og jörð saman með skemmtilegum hætti og léku aðeins á taugakerfið og því auðvelt að missa áttir.
Sólin lét þó aðeins sjá sig áður en yfir lauk og varð þetta hin besta ferð enda engin röð í lyftur og ekki svo margir í brekkunum.


Skírdagur 9. apríl
var nú með flottustu dögum í mannaminnum hjá mér enda við ræsingu 7 um morgunin var glampandi blíða, sólin komin upp og nokkuð hlýtt í lofti miðað við aprílmánuð.  Haldið var inn að Meðalfellsvatni í Hvalfirði og inn Flekkudal þar sem 7 göngumenn að mértöldum héldu af stað upp Sandsfjall og hækkuðu sig til að byrja með úr 60m í um 400 m uppá fjallið.

Í brakandi blíðu og byrjað að afklæðast í brekkunum þar fyrir neðan.  Útsýnið af fjallinu fínt til allra átta.  Skarðsheiðardraumurinn allur til norðurs og til austurs kom Langjökull, Eiríksjökull, Botnsúlur og fleiri kennileiti komu þar upp.  Við horfðum á mávana ofan í Stekkjargil þar sem þeir flugu og sungu í klettunum, gengum svo áfram upp eftir aflíðandi hlíðum upp Esjuhlíðar.  Þorbjörg jarðfræðingurinn okkar fræddi okkur aðeins um tígulmyndanir í steinum sem við tipluðum yfir sem orsakst víst af frosti og þýðu og þeir fara í tígulaga form......,  Jæja upp á Esjuhorn í 740 metrum tipluðum við í þægilegri snjóbrekku og þá fór að sjást norðaustur yfir Esjuna en einnig lyfti Snæfellsjökull sér uppúr skýjunum yfir Akrafjalli og áttaði maður sig þar á að þar fór kóngurinn á svæðinu enda tignarlegur með eindæmum og að því er virtist mun nær heldur en þegar hann sést frá Reykjavík við sjávarmál.

Eftir gott matarhlé með útsýni yfir Skálafell, Móskarðahnúka og Laufskörð frá nýju sjónarhorni, var haldið áfram yfir Esjuna. Auðvitað birtist Hátindur Esjunnar okkur og svo horfðum við ofan í fyrri ferðir Hjölla "fararstjóra" uppúr Elífsdal sem við gengum framhjá.  Færið þyngdist aðeins og næstu 10 km máttum við ganga í brotsnjó, þ.e. brotnaði undan okkur skelin í hverju skrefi og maður datt niður.  Skiptumst á að vera fremst til að létta gönguna og þegar nær dró fór sólin á bakvið skýjin og smá gola í bakið ýtti okkur áfram.  Einhversstaðar var ákveðið að GPS segði að við stæðum á vörðunni á Hábungu 914m og þar var smellt einni mynd af og svo gengið áfram.

Í geggjuðu útsýni af toppi Esjunnar.  7 klst og 18 km síðar komum við niður á bílastæði eftir að hafa klöngrast við sæmilegar aðstæður niður af Þverfellshorni og hefðbundna gönguleið.
Snilldargöngudagur og gaf þessu páskafríi raunverulega góðan stimpil og má sjá video og myndir af því hér einhvers staðar.  Skemmtilegar myndir og video má sjá á þeim síðum.

Föstudagurinn Langi 10. apríl
var í rólegra lagi og var gangan stutt þennan dag eða hringur útí 10 11 enda kvöldið planað fyrir að rifja upp gömul kynni bekkjarfélag á Bifröst fyrir 10-12 árum síðan.  Lítið um það að segja en hélt Bifrópartý þar sem kíkt var á gamlar video myndir af okkur á árshátíð Bifrastar þar sem lagið var tekið.  Steig ég þar upp í líki Mel B í kjól og hárkollu með öðrum Spice stúlkum og söng af mínum lífs og sálar kröftum.  Mikið hlegið yfir þessu og síðan var Singstar sett í og við sungum Abba, Queen og fleira fram eftir nóttu.  Fínasta skemmtun og nokkrar myndir hér  fyrir Facebook notendur.


11. apríl laugardagur
var tekin snemma eftir lítinn svefn og ræst kl. 07:30 af Einari vini mínum sem mættur var á 38" Mjallhvíti.  Haldið var í Landmannalaugar með "litlu deild" 4x4.  Veðrið lék við hvern sinn fingur og útsýnið draumur alla leið í Laugarnar.  Vorum 4 bílar með enn 40" Landcruser í fararbroddi.

Var furðuhress eftir lætin kvöldið áður og prógrammið síðustu daga og hituðum við puslur í Landmannalaugum og héldum til baka.  Fallegt að vanda í Laugunum en fátt um fólk en allt landið kringum laugarnar kúnstugt að sjá.  Heitur reitur sem hreinsar allar snjó í kring svo það virðist sumar á köflum.

Færið var lítil fyrirstaða, hart og sæmilegur snjór en samt minni en oft áður þarna.  Festum bílana nokkrum sinnum til að fá eitthvað út úr þessu og vorum komin í bæinn um kvöldmatarleiti og bauð Dísa hans Einars mér í súper Lagsania.  Fallegar myndir úr þessari jeppaferð má finna hér einhversstaðar.

12. apríl Páskadagur
var ég vaknaður fyrir aldir.  Lét þó páskaeggið vera þar kl. 10 þegar ég stóðst ekki mátið að lesa málsháttinn auðvitað.......   Nei, heyrði í Önnu Rós rétt fyrir hádegi sem var á leið á skíði með nöfnu sinni Önnu og slóst ég með í för.
Veðrið en alveg ljómandi en aðeins meira af fólki en síðast þegar ég fór og því bið í lyfturnar.  Elínborg mætti líka á skíði og kíktum við á nokkur stökkbretti ma. í Suðurgili en þar var minna af fólki.  Endaði nú á því að taka of stórt stökkbretti og misreiknaði hæð þess og flaug nokkra metra og skrapaði snjóinn.  Ekki stórslys en smáeymsli nokkra daga á eftir.
Rétt náði í páksakalkún hjá systur minni undir kvöldið og var svo frameftir nóttu í pictunary með önnunum, bræðrum Önnu Rós, Ömmu hennar og Ellu.  Stelpurnar tóku okkur í bakaríið.

13. apríl 2 í páskum
var tíðindalítill en tók á móti snúðunum mínum eins og ég geri annan hvern mánudag og við kíktum  í langt sund, kíktum til Heiðu systir og fórum að leiði ömmu í Grafarvogskirkjugarði.

14. apríl þriðjudagur
komin og páksafríið búið en get nú ekki sleppt að bæta því í þessa mögnuðu 8 daga törn hjá mér.  Fór á Vífilfellið í góðri rigningu með Elleni vinkonu minni sem var þar í fyrstu göngu sinni.  Ekki auðveld fyrsta ganga en við gengum upp vesturgilið norðan megin við Vífilfell og fórum upp mjög bratta snjóbrekku.  Gekk nokkuð vel og góð mæting hjá Toppförum og vorum við misblaut í galla sem ekki eru hannaðir fyrir íslenska rigningu þó að þessu sinni hafi ekki vindur fylgt með heldur milt vorveður.

Önnur rigningarferðin mín með Toppförum í rigningu og þoku og sú þriðja sem hópurinn er þar við sömu aðstæður.  Sjá myndir hér.

Held að "" vikan hjá mér verði ekki endurtekin á næstunni en það er aldrei að vita, gefur lífinu sannarlega gildi.



Flettingar í dag: 138
Gestir í dag: 37
Flettingar í gær: 274
Gestir í gær: 57
Samtals flettingar: 199498
Samtals gestir: 26852
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 08:01:07

Eldra efni

Tenglar

Um mig

Nafn:

Gylfi

Heimilisfang:

Grafarvogurinn

Staðsetning:

Reykjavik

Um:

Uppalin í Mosó og Grafarvogi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Dances with wolfes

Uppáhalds tónlist:

Queen

Uppáhalds manneskjur:

Strákarnir mínir

Uppáhalds matur:

Samloka með skinku osti og tómatssósu